Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að kynna og auglýsa eftirfarand tillögur samkvæmt, 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Parhús að Háeyri 1 og 2
Breytingartillaga felur í sér að skipulagi fyrir tvö ný 450 fermetra einbýlishús að Háeyri 1 og 2 verði breytt svo byggja megi tvö parhús, fjórar 225 fermetra einingar. Íbúðum fjölgar úr tveimur í fjórar. Húsin eru á tveimur hæðum, mesta hæð hækkar úr 7,5 m í 8 m frá gólfkóta. Kvöð er um sameiginlega aðkomu beggja húsa innan lóðar Háeyris 2 en aðkoma tengist Reykjalundarvegi við suðurenda lóðar.
Hljóti deiliskipulagið samþykkt mun Mosfellsbær afgreiða óverulega breytingu aðalskipulags, skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, þar sem íbúðum á reit ÍB-330 er fjölgað um tvær.
Brettavöllur við Krikaskóla
Breytingartillaga felur í sér að skipulagi Krikahverfis er breytt þannig að skilgreint verði svæði fyrir brettavöll milli Reykjavegar og battavallar Krikaskóla.
Stærð svæðis er um 600 fermetrar. Völlurinn verður aðlagaður að umhverfinu svo hann falli vel að landi. Gróður og mön munu veita skjól og skýla honum frá Reykjavegi og nánasta umhverfi. Aðkoma að brettavelli er frá austurenda bílastæðis Krikaskóla auk þess sem bætt verður tenging við göngustíg. Breyting er gerð á reit sem skilgreindur er í skipulagi fyrir hljóðskerm næst Reykjaveginum, á óbyggðu opnu svæði. Svæðið er aðlagað og trjágróður sem fyrir er verður fluttur til og gróðursettur í og við nýju mönina.
Tillögur og gögn eru aðgengileg á vef Mosfellsbæjar, mos.is/skipulagsauglysingar, en einnig í Þjónustuveri Mosfellsbæjar, Þverholti 2, svo þau sem þess óska geti kynnt sér breytingar og gert athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skal senda þær til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ, eða í tölvupósti á skipulag[hja]mos.is.
Frestur til að skila inn athugasemdum/ábendingum er til og með 23. janúar 2023.
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar