Birgir D. Sveinsson kennari og fyrrum stjórnandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar og fyrrum skólastjóri Varmárskóla var í dag útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar við hátíðlega athöfn við Varmárlaug.
Birgir er heiðraður fyrir hans mikla framlag til tónlistar- og menningarlífs sem og uppeldismála í Mosfellsbæ.
Birgir D. Sveinsson er fæddur 5. apríl 1939 í Neskaupstað. Hann lauk landsprófi í Vestmannaeyjum og kennaraprófi árið 1960. Samhliða námi stundaði Birgir tónlistarnám og lék á blásturhljóðfæri. Birgir fluttist til Mosfellsbæjar að afloknu kennaraprófi og var kennari við Varmárskóla árin 1960-1977. Hann var yfirkennari 1977-1983 og skólastjóri Varmárskóla 1983-2000.
Birgir var fenginn til að kenna drengjum á blásturshljóðfæri haustið 1963 og úr varð drengjahljómsveitin, síðar Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, sem spilaði fyrst opinberlega við vígslu sundlaugarinnar að Varmá, þann 17. júní 1964. Skólahljómsveitin hefur starfað óslitið í 60 ár.
Þá stóð Birgir enn fremur að því að efna til tónlistarkennslu í Barnaskólanum sama haust og það starf þróaðist í að stofnaður var tónlistarskóli í Mosfellssveit haustið 1966.
Birgir var stjórnandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar í 40 ár eða fram til ársins 2004. Hljómsveitin hefur þjónað tónlistarlegu uppeldi fjölda barna og ungmenna í Mosfellsbæ en jafnframt verið bæjarhljómsveit og komið fram við hin ýmsu hátíðlegu tækifæri.
Það eru þúsundir barna og ungmenna sem hafa notið leiðsagnar Birgis, sem kennara og tónlistarmanns og umsögn fyrrum nemenda er samhljóma um þau góðu áhrif sem Birgir hefur haft á þeirra þroskabraut. Birgir er sagður hafa verið einstakur kennari, þolinmóður, umhyggjusamur og hafa veitt sérhverju barni athygli sína.
Birgir var formaður Samtaka íslenskra skólahljómsveita í 20 ár en samtökin voru stofnuð í Mosfellsbæ. Hann var útnefndur heiðursfélagi samtakanna árið 2019. Birgir fékk viðurkenningu frá bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir frábær störf árið 1994.
Árið 2005 var Birgir sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir tónlistarkennslu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Aðrir heiðursborgarar Mosfellsbæjar
Nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxnes (1902-1998) var útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar árið 1972. Halldór bjó í Mosfellssveit og síðar Mosfellsbæ nánast alla sína tíð og sótti efnivið í margar sögur sínar í heimasveitina. Hann ólst upp að Laxnesi í Mosfellsdal, kenndi sig alla tíð við bernskustöðvar sínar og settist að í dalnum sem fulltíða maður. Hann sá bernskuár sín í dalnum í hillingum og í nokkrum bóka sinna sækir hann efniviðinn í Mosfellsbæ, einkum í Innansveitarkroniku og endurminningabókinni Í túninu heima.
Jón M. Guðmundsson (1920-2009), fyrrverandi oddviti sveitarstjórnar Mosfellshrepps var útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar á fundi bæjarstjórnar þann 30. ágúst 2000. Í ákvörðun bæjarstjórnar var vísað til þess að með þessum heiðri hafi verið lagt fram þakklæti sveitarfélagsins og viðurkenning á hinu mikilvæga framlagi Jóns til uppbyggingar sveitarfélagsins en Jón var oddviti Mosfellshrepps 1962-1981 og hreppstjóri 1984-1990.
Salome Þorkelsdóttir (f. 1927) var gerð að heiðursborgara Mosfellsbæjar 2007. Salóme var kjörin í hreppsnefnd Mosfellshrepps árið 1966 og sat þar til 1982. Hún var aðalgjaldkeri Mosfellshrepps 1972-1979, varaoddviti 1978-1981 og oddviti 1981-1982. Árið 1979 var hún kjörin á Alþingi og sat á Alþingi til ársins 1995. Salome gegndi stöðu forseta efri deildar Alþingis 1983-1997, forseta sameinaðs þings 1991 og forseta Alþingis 1991-1995. Árið 1993 var Salome sæmd stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í opinbera þágu.
Á efstu myndinni eru Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs, Birgir D. Sveinsson og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Myndir: Raggi Óla