Samkvæmt þjónustukönnun Gallup segjast 89% íbúa Mosfellsbæjar ánægð með sveitarfélagið sem stað til að búa á og eru ánægðust í samanburði við íbúa annarra sveitarfélaga, en könnunin veitir yfirlit yfir stöðu Mosfellsbæjar í samanburði við 18 önnur sveitarfélög sem þátt tóku í könnuninni.
Auk þessa mældist mikil ánægja meðal íbúa með þjónustu sveitarfélagsins í heild og situr Mosfellsbær í öðru sæti þar ásamt því að vera yfir meðaltali í 11 af 12 þjónustuþáttum sem kannaðir voru.
Þá deilir Mosfellsbær öðru sæti þegar kemur að ánægju með þjónustu við eldri borgara og er í þriðja sæti af sveitarfélögunum þegar kemur að skipulagsmálum, þjónustu við barnafjölskyldur og menningarmálum.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri:
Við fögnum því að Mosfellsbær mælist það sveitarfélag þar sem íbúar eru ánægðastir með búsetu. Þá erum við mjög ánægð með að vera yfir meðaltali sveitarfélaga í 11 þáttum af 12 sem mældir voru. Könnun sem þessi gefur okkur vísbendingar um viðhorf íbúa til þeirrar þjónustu sem við veitum og veitir tækifæri til að rýna það sem vel er gert og þar sem tækifæri eru til úrbóta. Við viljum til dæmis skoða betur þjónustu við fatlað fólk og sjáum að sveitarfélög eru heilt yfir að mælast lág þar. Við erum að fara í umfangsmeiri þjónustumælingar þar sem notendur þjónustu verða markvisst spurðir um þá þjónustu sem sveitarfélagið er að veita og það mun gefa okkur betri innsýn inn í einstaka þjónustuþætti og þarfir notenda. Við byrjum á könnun á heimaþjónustu við eldri borgara og fer sú könnun út núna í mars.
Gallup framkvæmir könnunina árlega og hefur Mosfellsbær verið með allt frá árinu 2008 og eru því til samfelldar mælingar sl. 15 árin. Í könnuninni er spurt um viðhorf til þjónustu og málaflokka út frá reynslu og áliti íbúa. Könnunin var framkvæmd í síðastliðnum nóvember fram í miðjan janúar og voru niðurstöðurnar kynntar á fundi bæjarráðs í morgun 22. febrúar 2024.
Tengt efni
Mosfellsbær í öðru sæti á landsvísu – 92% íbúar ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til þess að búa á
Niðurstöður úr þjónustukönnun Gallup fyrir árið 2022 liggja nú fyrir.
89% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á
Niðurstöður úr þjónustukönnun sveitarfélaganna fyrir árið 2021 liggja nú fyrir.
Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir
Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.