Niðurstöður úr þjónustukönnun sveitarfélaganna fyrir árið 2021 liggja nú fyrir.
Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins. Könnunin hefur verið framkvæmd í fjölda ára og ávallt er spurt sömu spurninga. Könnunin veitir yfirlit yfir þróun mála í einstaka málaflokkum yfir tíma og stöðu sveitarfélagsins gagnvart öðrum sveitarfélögum.
Eins og undanfarin ár situr Mosfellsbær í efstu sætum þegar spurt er um sveitarfélagið sem stað til þess að búa á en dalaði í fyrra þegar mat var lagt á þjónustuna í heild sem hlýtur þá að koma til skoðunar.
Á árinu 2021 reyndust 89% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á og hækkaði úr 88% frá fyrra ári. Á á móti fækkaði þeim sem svara þeirri spurningu með svarinu hvorki né og fjölgaði aðeins í hópi íbúa eru frekar óánægðir með sveitarfélagið sem stað til þess að búa á.
Könnunin er innlegg í þróun þjónustu Mosfellsbæjar
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir að könnun Gallup sé hluti af þeim gögnum sem bærinn nýtir til að rýna hvað gangi vel og hvað má betur fara. „Könnun Gallup er ævinlega kynnt fyrir öllum nefndum bæjarins og mögulegar umbætur eru ræddar þar. Í kjölfarið vinnur hvert svið fyrir sig að því að rýna hvað megi betur fara. Í fyrra var ákveðið að afla frekari upplýsinga hjá íbúum í þrem málaflokkum. Gallup var falið að halda rýnihópa þar sem að sjö til níu íbúum var boðið að ræða það hvar sveitarfélagið er að standa sig vel og hvar síður en ekki hvað síst hvernig Mosfellsbær gæti bætt sig. Þannig voru tveir rýnihópar fengnir til að fjalla um skipulagsmál og annar hópur rýndi þjónustu bæjarins við aldraða. Loks var gerð sérstök spurningakönnun meðal fatlaðra til að fá betri mynd af þeirra sjónarmiðum um hvað má betur fara í þjónustu við þann mikilvæga hóp en við sjáum að stærri sveitarfélögum vegna síður í þeim málaflokki. Eitt af því sem hlýtur að koma til skoðunar er hvað það er sem minni sveitarfélög eru að gera með öðrum hætti en við sem tilheyrum hópi stærri sveitarfélaga í landinu. Nú stendur yfir vinna framkvæmdastjóra sviða við að móta aðgerðir og umbætur sem byggja á þeim gögnum sem aflað hefur verið umfram hina árlegu könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga.“ segir Haraldur Sverrisson.
Mosfellsbær er yfir landsmeðaltali í tíu af tólf þjónustuþáttum
„Almennt séð minnkar ánægja íbúa á árinu 2021 í öllum sveitarfélögum sem könnunin nær til og er Mosfellsbær þar engin undantekning. Mosfellsbær er þó sem fyrr yfir landsmeðaltali í tíu af þeim tólf þjónustuþáttum sem spurt er um og ánægja með málefni grunnskólans eykst milli ára á sama tíma og meðaleinkunn sveitarfélaga lækkar á landsvísu í þeim málaflokki. Svipuð þróun á sér stað í málefnum eldri borgara þar sem við náum að halda okkar á sama tíma og landið dalar. Við Mosfellingar getum verið stolt af því að vera efst stærri sveitarfélaga þegar kemur að mati íbúa á Mosfellsbæ sem stað til að búa á þar sem 89% eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til þess að búa á. Mér finnst það enn og aftur staðfesta að við búum yfir ákaflega miklum félagsauð þar sem sterkar tengingar eru milli fólks og við stöndum saman í því sem skiptir máli. Nú sem fyrr skiptir það okkur sem störfum fyrir Mosfellinga máli að vita að þeir eru í megindráttum ánægðir með þjónustuna. Könnunin veitir okkur mikilvægar upplýsingar sem við nýtum til þess að standa okkur betur þar sem ánægjan dvínar milli ára. Við höfum markað þá stefnu að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það hefur að mínu mati tekist í öllum megindráttum. Það er hins vegar ekki nóg fyrir okkur að vera yfir landsmeðaltali í meginþorra málaflokka því við viljum og getum gert betur. Niðurstöðurnar í könnun Gallup er því brýning til okkar starfsfólks Mosfellsbæjar, niðurstöðurnar lýsa því hvað er að takast vel hjá okkur um leið og hún beinir sjónum okkar að nauðsynlegum umbótum. “ sagði Haraldur Sverrisson.
Könnunin var framkvæmd frá 8. nóvember 2021 til 12. janúar 2022. Heildarúrtak í könnuninni er 11.426 manns í 20 stærstu sveitarfélögum landsins. Úrtakið í Mosfellsbæ var 430 einstaklingar.
Tengt efni
Best að búa í Mosfellsbæ
Mosfellsbær í öðru sæti á landsvísu – 92% íbúar ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til þess að búa á
Niðurstöður úr þjónustukönnun Gallup fyrir árið 2022 liggja nú fyrir.
Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir
Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.