Handverkstæðið Ásgarður og Íslandsbanki tóku höndum saman í tilefni af 20 ára afmæli Ásgarðs og færðu börnum í Mosfellsbæ leiktæki að gjöf sem staðsett eru í Ævintýragarðinum.
Ásgarður handverkstæði var stofnað fyrir 20 árum í Lækjarbotnum ofan við Lögbergsbrekku en árið 2003 var starfsemin flutt í Álafosskvos. Í Ásgarði starfa um 30 þroskahamlaðir einstaklingar og þeim til halds og trausts eru sjö verkstjórar. Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Ásgarðs unnið af fullum krafti við að smíða leiktæki, sem eru stækkuð mynd af þeim leikföngum sem eru framleidd í Ásgarði. Þetta eru kindur, hestar, kýr, kolkrabbar, drekahestur og dráttarvél. Leiktækin voru afhent við hátíðlega athöfn í upphafi bæjarhátíðinnar Í túninu heima.
„Hér hafa margir rúllað í gegn þessi tuttugu ár sem við höfum starfað. Ég hef verið hér frá upphafi og við erum mjög sáttir við þessa staðsetningu og hér er gott að vera,“ segir Óskar Albertsson, talsmaður hópsins og bendir yfir Álafosskvosina brosandi. Karen Rúnarsdóttir, útibússtjóri í Mosfellsbæ og Ólafur Ólafsson, útibússtjóri við Gullinbrú, sem munu stýra nýja sameinaða útibúinu á Höfðabakka segja bæði að Ásgarður sé góður og skemmtilegur viðskiptavinur. Heimir tekur í sama streng. „Þau hafa fært okkur konfekt og það fer vel í mannskapinn. Við höfum unnið með Íslandsbanka síðan við fluttum hingað í Kvosina og þau hafa verið mjög liðleg við okkur,“ segir Heimir.
Tengt efni
Fjallahjólabraut og frisbígolf í Ævintýragarðinum
Framkvæmdir hófust í morgun við nýja fjallahjólabraut í Ævintýragarðinum.
Áframhaldandi samstarf við Ásgarð
Í dag var skrifað undir áframhaldandi samning milli Ásgarðs handverkstæðis og Mosfellsbæjar um hæfingartengda þjónustu Ásgarðs til fatlaðra íbúa Mosfellsbæjar.
Ærslabelgur í Ævintýragarðinum
Nýr ærslabelgur er kominn upp í Ævintýragarðinum.