Fastráðið starfsfólk Bókasafns Mosfellsbæjar heimsótti finnsk almenningsbókasöfn í lok maí.
Verkefnastjóri hjá Borgarbókasafni Helsinki hafði undirbúið tveggja daga dagskrá og voru móttökur alls staðar frábærar.
Finnar framarlega í safnamálum
Finnar eru mjög framarlega í þróun almenningsbókasafna hvað varðar þjónustu, tækni, búnað, safnefni og byggingar. Söfnin eru að verða „svæði fyrir íbúana“ í auknum mæli. Þau hvetja til nýrra hugmynda og hugsana og deila kunnáttu, þekkingu og reynslu með viðskiptavinum. Finnar eru duglegastir allra Norðurlandabúa að sækja bókasöfn og útlán mikil, ekki síst barnaefni.
Sérstök þjónusta
Meðal starfsmanna safnanna í Helsinki eru svokallaðir „fartölvulæknar“ sem hægt er að leita til með hvers kyns tölvuvandamál. Farið er yfir málið með viðskiptavinum og þeim hjálpað til sjálfshjálpar. Alhliða upplýsingar eru veittar og boðið upp á tölvukennslu. Tónlistarráðgjafar, bókmenntaráðgjafar og fleiri sérfræðingar og tæknimenn eru einnig til reiðu, endurgjaldslaust. Margt ungt fólk vinnur í söfnunum og meðal verkefna er einfaldlega að sitja og spjalla við gesti, ekki síst börn og unglinga. Heimsótt voru fimm almenningsbókasöfn,
hvert með sínu sniði. Öll eru þau hluti af heildarmynd Borgarbókasafns Helsinki.
Hefðbundin bókasöfn heimsótt
Fyrst var komið í 100 ára gamla bókasafnsbyggingu. Þar hefur starfsemin verið aðlöguð breyttum notendahópi, sem eru ungar barnafjölskyldur og námsmenn og er fjölbreytt starfsemi fyrir alla aldurshópa. Annað safn var í verslunarmiðstöð og mikill fjöldi gesta streymir um daglega. Þar er mikill erill og fjör, margt í gangi og fátt bannað annað en hlaupa um. Þá lá leiðin í nýuppgert úthverfasafn. Notendahópurinn er fyrst og fremst börn og unglingar. Haft var samráð við íbúa við endurgerð húsnæðis og búnaðar. Lítið en athyglisvert útibú var heimsótt í Sweaborg, sem er eyja úti fyrir Helsinki og var áður hernaðarvirki. Þar eru mörg sögutengd söfn.
Óhefðbundin bókasöfn
Að sjálfsögðu er bókin í fyrirrúmi í langflestum safnanna, enda mikil eftirspurn. Í nokkrum söfnum hefur þó alfarið verið breytt um útlit og áherslur. Tvö þeirra voru heimsótt. Í Library 10 er fyrst og fremst tónlistarefni í boði og þær fáu bækur sem eru til útláns tengjast mestmegnis tónlist og tónlistarfólki, nema nokkrir tugir svokallaðra „Best-sellers“. Boðið er upp á æfingaherbergi með hljóðfærum og lítil upptökustúdíó, allt ókeypis. Þá eru græjur til að færa efni af snældum, vinyl og VHS yfir á diska. Í Meetingpoint eru engar bækur, heldur alls
konar önnur þjónusta og starfsemi. Aðstaða er til að halda stóra og litla fundi og hægt að prenta hvers kyns efni, m.a. í þrívídd eftir teikningum viðskiptavina.
Framtíðarsýn
Kynnt var skipulagsvinna og framtíðarsýn fyrir nýtt borgarbókasafn sem verður opnað árið 2017. Byggt er á þeirri framtíðarsýn í starfsemi og þjónustu almenningsbókasafna sem er að ryðja sér til rúms á Norðurlöndum og víðar. Almenningsbókasöfn framtíðarinnar eru s.k. „Mediaspace“. Þau eru ekki byggingar heldur staðir þar sem skipst er á þekkingu og reynslu. Þau eru menningarlegir stefnumótastaðir sem bjóða fjölbreytt tækifæri til samskipta, félagslegra athafna og auk þess stafrænan aðgang. Þau eru sveigjanlegir og virkir griðastaðir fyrir alla sem leita þekkingar, hvatningar og persónulegs þroska. Þau eru staðir tækifæra!
Tengt efni
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð
Stafræn bókasafnskort í Mosfellsbæ
Lína Langsokkur mætti óvænt á sögustund
Það vakti mikla lukku í gær þegar Lína Langsokkur, Hr. Níels, Anna og Keli mættu óvænt á sögustund í Bókasafni Mosfellsbæjar.