Álafosskvosin er fallegt svæði með ríka sögu sem í gegnum tíðina hefur dregið til sín marga gesti, bæði innlenda og erlenda.
Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins vinnur nú í samstarfi við Mosfellsbæ að því að kanna áhuga og forsendur til þess að efla Álafosskvosina sem áfangastað fyrir gesti.
Hluti af þeirri vinnu var vinnustofa um Álafosskvosina sem haldin var þann 28. maí í Hlégarði þar sem markmiðið var að heyra raddir hagsmunaaðila til að kanna hvort og hvernig efla megi Álafosskvosina sem áfangastað. Áhersla var lögð á að ræða hvað það er sem gerir Álafosskvosina að áhugaverðum stað til að heimsækja, fyrir hvern svæðið er áhugavert, hvers konar gestir henta því og hvað er hægt að gera til að efla Álafosskvosina sem áfangastað.
Þátttaka í vinnustofunni var góð en m.a. voru fulltrúar frá íbúasamtökunum, félagasamtökum, fulltrúar frá Mosfellsbæ og ferðaþjónustuaðilar frá bæði Mosfellsbæ og höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að mörg tækfæri eru í Álafosskvosinni og flestir sammála um að þar væri um að ræða einstakt svæði sem getur haft mikið aðdráttarafl fyrir gesti. Á fundinum komu fram skemmtilegar og fjölbreyttar hugmyndir um hvaða upplifun er hægt að bjóða upp á svæðinu og mun Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins taka þær saman og kynna þær fyrir Mosfellsbæ og viðeigandi hagaðilum í framhaldinu fyrir sumarlok.