Fyrsta skóflustungan var tekin í dag að tveimur fjölbýlishúsum við Úugötu 10-12 þar sem Bjarg íbúðafélag byggir 24 íbúðir.
Félagið er sjálfseignarstofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd og voru fyrstu íbúðirnar á þeirra vegum afhentar leigutökum í júní 2019.
Bæjarráð samþykkti úthlutun lóðanna í tengslum við 5. áfanga Helgafellshverfis. Á því svæði hefur verið skipulögð 151 íbúð sem myndar blandaða byggð í hlíð á móti suðri.
Skóflustunguna tóku þau Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Ólafur Óskarsson formaður velferðarnefndar og Sigurbjörg Fjölnisdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fyrir hönd Mosfellsbæjar. Fyrir hönd Bjargs var Björn Traustason framkvæmdastjóri og fyrir hönd byggingaraðila þeir Baldur Pálsson og Hjálmar Jónsson hjá Eðalbyggingum og Finnbjörn A. Hermannsson formaður ASÍ.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar:
,,Þetta er mjög ánægjulegur áfangi og mikilvægt að geta boðið upp á íbúðir til langtímaleigu á hagstæðu verði hér í Mosfellsbæ”.
Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs íbúðaleigufélags:
“Verkefnið markar upphafið á farsælu samstarfi við Mosfellsbæ og er mikilvægur áfangi í uppbyggingu öruggs leiguhúsnæðis.”
Tengt efni
Samstarfssamningar Mosfellsbæjar við íþrótta- og tómstundafélög endurnýjaðir
Samningarnir gilda frá árinu 2025 til loka ársins 2027.
Álagning fasteignagjalda 2025
Starfsemi Mosfellsbæjar eftir hádegi 6. febrúar 2025