Skipulagsnefnd hefur samþykki að heimila skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar að hefja undirbúning vinnu við mótun fyrsta áfanga deiliskipulags íbúðarbyggðar að Blikastöðum.
Undirbúningur deiliskipulagsins mun taka mið af tillögu um rammaskipulags landsins og frumdrögum aðalskipulags.
Uppbygging íbúðarbyggðar að Blikastöðum hefur legið fyrir á áætlunum sveitarfélagsins um langt skeið. Í gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir umfangsmikilli byggð á um 82 hektara svæði í Blikastaðalandi. Vinna við endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar hefur meðal annars leitt af sér markmið um þéttari uppbyggingu á svæðinu. Markmið um þéttari uppbyggingu er í samræmi við breyttar aðstæður og áherslur í uppbyggingu íbúðarbyggðar á höfuðborgarsvæðinu. Veigamesta breyting aðstæðna felst í stefnumörkun og vinnu við samgöngu- og þróunarás fyrir hágæðakerfi almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu, sem í daglegu máli er kallað Borgarlína.
Á undanförnum árum hefur farið fram vinna að hálfu landeigenda og sveitarfélagsins um þróun, hönnun og rýni gæða og getu uppbyggingar að Blikastaðalandi. Vinna þessi hefur byggt á tillögum og gögnum frá ráðgjöfum Alta sem unnið hafa rammaskipulag og rammahluta aðalskipulags sem sveitarfélagið og skipulagsnefnd hefur fjallað um, meðhöndlað og samþykkt inn í greinargerð frumdraga aðalskipulags. Skipulagsnefnd hefur þannig afgreitt og innfært hugmyndir að uppbyggingu landsins inn í nýtt aðalskipulag til samræmis við rammaskipulag og uppbyggingarsamning.
„Þessi áfangi markar tímamót í þessu mikilvæga verkefni og mjög ánægjulegt að við séum komin á þennan stað“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. Næstu skref felast meðal annars í að rýna skipulagið út frá því hvernig verði tryggt að fyrsti hluti uppbyggingar verði sjálfbær um þjónustu, almenningssamgöngur, skóla, veitur, græna innviði og aðra mikilvæga þætti. Þá þarf að marka ásýnd byggðarinnar og staðsetja skóla- og íþróttasvæði. Allar tillögur og útfærslur munu koma til umfjöllunar og afgreiðslu hjá skipulagsnefnd líkt og skipulagslög segja til um og íbúar og aðrir haghafar verða með í ráðum sem er í senn lögbundið og hluti af áherslum Mosfellsbæjar á sviði lýðræðismála.