Um helgina fór fram vígsla á tveimur nýjum stólalyftum sem ganga undir nöfnunum Drottning og Gosi og fyrsta áfanga af snjóframleiðslukerfi í Bláfjöllum.
Um stærsta áfanga í uppbyggingarsögu skíðasvæðinsins í Bláfjöllum er að ræða. Uppbyggingunni er ætlað að hafa jákvæð áhrif á upplifun notenda með því að skíðadögum fjölgi með snjóframleiðslubúnaði, raðir í lyftur heyri sögunni til með nýjum lyftum, það verði hægt að opna fyrr og hafa opið þrátt fyrir hlákutímabil.
Framkvæmdirnar á svæðinu eru samkvæmt samkomulagi um viðamikla uppbyggingu á skíðasvæðunum, en vinna vegna þess hefur staðið yfir á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) allt frá árinu 2018.
Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs var fulltrúi Mosfellsbæjar við vígsluna ásamt fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Snjóframleiðsla hefur staðið yfir undanfarna daga þegar veðurskilyrði hafa verið rétt til framleiðslunnar og því standa vonir til að hægt verði að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum fyrir jól.