Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2021 og næstu þrjú ár þar á eftir var samþykkt í bæjarstjórn þann 9. desember.
„Fjárhagsáætlun ársins 2021 er unnin í skugga heimsfaraldurs en endurspeglar um leið sterka stöðu sveitarfélagsins til að mæta tímabundnum fjárhagslegum áföllum. Minnkandi skatttekjur og aukinn rekstrarkostnaður vegna kórónaveirunnar hefur neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélaga. Í fjárhagsáætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir um 567 m.kr. halla á rekstri sveitarfélagsins. Efnahagsleg áhrif faraldursins eru það mikil á rekstur sveitarfélagsins að óhjákvæmilegt er annað en að bæjarsjóður verði rekinn með halla. Hinn möguleikinn hefði verið að skera verulega niður í rekstri og þjónustu sveitarfélagsins. Það er ekki skynsamleg stefna við ríkjandi aðstæður og ég tel að okkur hafi tekist að verja þjónustu við íbúa. Mosfellsbær býr að því að hafa verið með góðan og ábyrgan rekstur undanfarin ár og því hægt að reka bæjarsjóð með halla til skamms tíma þó að það leiði óhjákvæmilega til aukinnar skuldsetningar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2021:
- Rekstrarniðurstaða neikvæð um 567 m.kr.
- Skuldaviðmið við árslok 113,3%.
- Áætlað veltufé frá rekstri verður jákvætt um 486 m.kr. eða tæplega 3,7% af heildartekjum.
- Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,48% af útsvarsstofni.
- Tekjur verði 13.307 m.kr.
- Gjöld án fjármagnsliða 12.673 m.kr.
- Fjármagnsliðir 686 m.kr.
- Fyrirhugað er að framkvæma fyrir 2.560 m.kr. sem að mestu rennur til skóla-, gatna- og veitumannvirkja.
- Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmlega 4,4% milli ára, en þeir eru nú um 12.600.
- Hófleg hækkun gjaldskráa til samræmis við stefnumörkun lífskjarasamninganna.
- Leikskólagjöld lækka um 5%.
Tengt efni
Hátt fjárfestingarstig í Mosfellsbæ
Áætlaður rekstrarafgangur er 716 milljónir króna árið 2025.
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.
Rekstrarafgangur Mosfellsbæjar áætlaður tæpur milljarður árið 2024
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn, þann 6. desember, er lögð áhersla á ábyrgan rekstur samhliða mikilli uppbyggingu innviða, háu þjónustustigi og lágum gjöldum til barnafjölskyldna.