Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 var lagður fyrir fund bæjarráðs í dag, fimmtudaginn 3. apríl 2025. Rekstrarniðurstaða A og B hluta Mosfellsbæjar er jákvæð um 877 milljónir.
„Þessi niðurstaða endurspeglar traustan og ábyrgan rekstur, þrátt fyrir verðbólgu og hátt vaxtastig. Við höfum náð þessum árangri á sama tíma og við höfum ráðist í metnaðarfullar framkvæmdir og nauðsynlegt viðhald“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
Metár í framkvæmdum
Rekstrarniðurstaðan er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Stærsta framkvæmd ársins er nýr leikskóli fyrir 150 börn í Helgafellshverfi sem verður tekinn til notkunar í sumar 2025. Þá var einnig unnið að innréttingum í íþróttahúsinu við Helgafellsskóla og við gatnagerð í hverfinu. Framkvæmdir voru hafnar á aðalvellinum við Varmá og endurnýjun skólalóða við Kvíslarskóla og Varmárskóla. Auk þess var farið í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir í skólabyggingum.
„Árið 2024 einkenndist af umfangsmiklum framkvæmdum en það var fjárfest fyrir 3,7 ma kr. og er eitt stærsta fjárfestingaár Mosfellsbæjar til þessa“ segir Regína. ,,Þá opnuðum við nýjan búsetukjarna í Helgafellshverfi fyrir fatlaða einstaklinga og tókum í gagnið nýja félagsmiðstöð fyrir aldraða í sögufrægri byggingu að Brúarlandi.”
Traustur rekstur
Heildartekjur bæjarins námu 22,2 milljörðum króna. Rekstrargjöld fyrir afskriftir voru 19,2 milljarðar króna, þar af nam launakostnaður 10,9 milljörðum eða 57% útgjalda.
Eigið fé sveitarfélagsins var 8,8 milljarðar í árslok og eiginfjárhlutfall 25,1%. Veltufé frá rekstri nam 1.815 milljónum eða 8,2% af tekjum. Skuldaviðmið var 94,5% sem er vel innan ramma um fjármál sveitarfélaga sem er 150%.
Fræðslu- og uppeldismál eru umfangsmesti málaflokkurinn og til hans var varið 9.221 milljónum eða 53,4% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 3.786 milljónum eða 21,9% skatttekna og eru þar með talin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundarmál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1.770 milljónum eða 10,3% skatttekna.
Íbúum heldur áfram að fjölga
Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og voru íbúar 13.715 þann 1. janúar 2025. Á síðustu tíu árum hefur íbúafjöldi Mosfellsbæjar vaxið um tæp 50%. Áfram er gert ráð fyrir íbúafjölgun næstu árin með lokaáföngum Helgafellshverfis og nýju hverfi í landi Blikastaða.
„Við leggjum ríka áherslu á að veita góða þjónustu og halda áfram að byggja upp öflugt samfélag á traustum grunni,“ segir Regína Ásvaldsdóttir.
Tengt efni
Áætlaður rekstrarafgangur 702 milljónir á árinu 2025
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 endurspeglar hátt fjárfestingarstig og forgangsröðun í þágu barna og unglinga.
Hátt fjárfestingarstig í Mosfellsbæ og forgangsröðun í þágu barna og unglinga
Áætlaður rekstrarafgangur er 716 milljónir króna árið 2025.
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.