Mosfellsbær hefur í varúðarskyni virkjað viðbragðsáætlanir sínar í samræmi við ákvarðanir Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins.
Þó að hverfandi líkur séu á að öskufall verði á höfuðborgarsvæðinu að mati Veðurstofu Íslands. Er það gert til að tryggja viðeigandi vöktun og undirbúning í ljósi eldgossins í Eyjafjallajökli. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.
Almannavarnir hafa gefið út fræðsluefni til íbúa um viðbrögð við öskufalli.
Viðbragðsteymi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar fylgist með loftgæðum í borginni allan sólarhringinn í gegnum þrjár mælistöðvar og sendir upplýsingar á tengiliði í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Að mati Heilbrigðiseftirlitsins er ekki ástæða til sérstakra varúðarráðstafana vegna hugsanlegs öskufalls á höfuðborgarsvæðinu á þessari stundu. Ennfremur fylgist Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis vel með vatnsbólum.
Tryggt verður að allar starfseiningar Mosfellsbæjar fái ítarlegar upplýsingar í tengslum við hugsanlegt öskufall í sveitarfélaginu. Sérstaklega er fylgst með gangi mála í skólum og leikskólum sveitarfélagsins.
Íbúar eru hvattir til fylgjast vel með fréttum og kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á vef Almannavarna og á vef landlæknisembættisins.
Tengt efni
Talsverð mengun víða á höfuðborgarsvæðinu
Eldgos á Reykjanesi - Mikil gasmengun á svæðinu
Eldgos hófst um kl. 16:40 við Litla-Hrút í gær.
Ítrekun á viðvörun vegna gasmökks
Veðurstofan vill ítreka ábendingar til almennings frá því í gær vegna gosmóðu á höfuðborgarsvæðinu.