Stóra upplestrarkeppnin var haldin í gær fimmtudag og tókst að allra mati afar vel.
Fimm drengir og fimm stúlkur tóku þátt í keppninni en auk þeirra komu fram Skólakór Varmárskóla sem söng nokkur lög undir stjórn Guðmundar Ómars Óskarssonar og Ágústa Dómhildur Karlsdóttir sem lék á fiðlu. Gunnhildur Sæmundsdóttir skólafulltrúi setti hátíðina og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri flutti ávarp. Kynnir var m.a. Fjóla Rakel Ólafsdóttir sigurvegari keppninnar í fyrra.
Keppendur lásu upp fyrirfram ákveðinn texta eftir rithöfundinn Ármann Kr. Einarsson og ljóð eftir Þorsteinn frá Hamri. Einnig lásu þau ljóð að eigin vali.
Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar 2010 urðu:
1. sæti Brynhildur Sigurðardóttir Varmárskóla
2. sæti Birta Karen Gunnlaugsdóttir Varmárskóla
3. sæti Ari Páll Karlsson Lágafellsskóla
Allir þátttakendur fengu að gjöf geisladiskinn Og fjöllin urðu kyr, Innansveitarkróniku eftir Halldór Laxness frá Mosfellsbæ og ljóðabók frá Forlaginu. Vinningshafar í þremur efstu sætunum fengu að auki peningaverðlaun frá Sparisjóðnum Byr.
Mosfellsbakarí og Krónan styrktu keppnina hér heima í héraði.