Starfsfólk og nemendur í Varmárskóla eru nú í átaki með flokkun og frágang sorps í samræmi við umhverfisstefnu skólans og skuldbindingar vegna Grænfánans sem Varmárskóli sótti um í febrúar á síðasta ári.
Búið er að koma upp flokkunarkössum fyrir gæðapappír og einnig eru komnar fötur fyrir lífrænan úrgang inn í allar stofur, í mötuneyti og á opin svæði í eldri deildinni. Þetta er einnig liður í því að skera niður kostnað við sorphirðu við skólann.
Með því að sækja um hina alþjóðlegu viðurkenningu, Grænfánann, bættist Varmárskóli í hóp skóla og leikskóla á landinu sem eru þátttakendur í verkefninu Skólar á grænni grein.
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og starfsfólks skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.
Mynd 1: 2. BI er mjög duglegur að flokka ruslið.
Mynd 2: Húsvörðurinn og deildarstjórinn að tæma fyrsta kassann af gæðapappír í gáminn.