Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun fyrir landið allt frá og með miðvikudeginum 5. febrúar 2025. Mosfellsbær vill því koma þeim ábendingum á framfæri til íbúa að fylgjast vel með veðri og öðrum tilkynningum.
Vegna mikillar úrkomu sem spáð er kunna að skapast varasamar aðstæður. Mælst er til að íbúar kanni niðurföll í kringum sín hús og tryggi að vatn komist leiðar sinnar.
Ef erfiðar aðstæður skapast vegna vatnavaxta og mögulegra flóða er íbúum bent á eftirfarandi:
- Meta hvort um neyðartilvik er að ræða, ef svo er hringja í 112
- Ef um minni atburð er að ræða má hringja í bakvakt MosVeitna í síma 566-8450 eftir kl. 16:00 þegar þjónustuver Mosfellsbæjar lokar
- Ef ekki er um neyðartilvik að ræða er íbúum bent á að senda inn ábendingu
Íbúar og verktakar innan sveitarfélagsins eru hvattir til að tryggja lausafjármuni vegna mögulegs foktjóns.