SAMAN-hópurinn hefur um árabil hvatt foreldra til að kynna sér reglur um útivistartíma barna og unglinga og virða hann. Reglur um útivistartíma eru árstíðarbundnar og taka breytingum 1. september og 1. maí ár hvert. Hópurinn leggur áherslu á að útvistartíminn taki samt sem áður miða af skólatíma að hausti því ein lykilforsenda þess að börnum og unglingum farnist vel er nægur svefn. Foreldrum er að sjálfsögðu heimilt að stytta útivistartíma barna sinna enda eru þeir forráðamenn barna sinna og unglinga.
Sumarið og tækifærin
Sumarið er tíminn! Sumarið er tími tækifæra til að njóta svo margs. Allan veturinn bíðum við eftir góða veðrinu og löngum dögum og sumarnóttum. En þessi tími líður alltaf ótrúlega hratt. Það er því mikilvægt að staldra við og ákveða hvernig við nýtum þennan dýrmæta tíma.
Við foreldrar njótum þeirra forréttinda að bera ábyrgð á börnunum okkar a.m.k þar til þau eru 18 ára gömul. Við höfum þennan tíma til að njóta samverustunda, fylgjast með þroska þeirra, leiðbeina þeim og miðla gildum. Þessi tími kemur ekki aftur, hann verður ekki endurtekinn og ekki settur í bið. Það er ekki eftir neinu að bíða, grípum tækifærið!
Mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar fyrir þroska barna og vellíðan er óumdeilt. Þau börn sem fá mikinn stuðning frá fjölskyldunni, eru undir virku eftirliti foreldra og verja miklum tíma með þeim, líður betur,þeim gengur betur í skóla og neyta síður áfengis og annarra vímuefna.
Börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum heldur en þau eiga kost á í dag. Sumarið er tími tækifæra fyrir foreldra til að bæta um betur og safna góðum minningum með börnum sínum. Sundferðir, samtöl, að borða saman, spila, ferðast saman og bara hanga saman, allt skiptir máli. Það skiptir máli að slaka á og njóta stundarinnar. Það þarf ekki alltaf að skipuleggja allt í smáatriðum, alltaf. Stundum detta frábær tækifæri til samveru í fangið á okkur, þá er gott að geta gripið!