Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna, gefur ungu fólki tækifæri til að senda inn eigin tónsmíð og móta hana svo úr verði fullskapað tónverk. Verkið er svo flutt í samstarfi við nemendur LHÍ og atvinnutónlistarfólk á Barnamenningarhátíð í Hörpu þann 11. apríl nk.
Upptakturinn er nú haldinn í tólfta sinn. Alls hafa 148 tónverk verið flutt eftir um 220 þátttakendur. Árlega eru sendar inn um það bil 90 tónsmíðahugmyndir sem valnefnd velur úr.
Ungmenni í 5. – 10. bekk geta sent inn hugmyndir að tónsmíðum í því formi sem þau kjósa, á upptöku eða með hefðbundinni eða óhefðbundinni nótnaskrift. Áhersla er lögð á að styðja þau í fullvinnslu hugmyndar, en ungmennin sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda tónsmíðadeildar.
Lengd tónverks skal vera 1-5 mínútur að hámarki, annaðhvort einleiks eða samleiksverk fyrir allt að sjö flytjendur.
Hugmyndir skulu berast ekki seinna en 21. febrúar á netfangið upptakturinn@gmail.com með nafni höfundar, aldri, símanúmeri, tölvupóstfangi, grunnskóla, titli verks og verkinu á nótum og/eða MP3 hljóðskrá.
Nánari upplýsingar:
Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Í samstarfi við Upptaktinn eru einnig Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Mosfellsbær, Kópavogsbær og Menningarfélag Akureyrar.