Mosfellsbær, í samvinnu við hjóladeild Aftureldingar, Heilsuvin og Icebike Adventures, vinnur að uppbyggingu fjölbreyttrar útivistar í Ævintýragarðinum, meðal annars með gerð hjólabrauta sem styðja við áherslur bæjarins á eflingu almenningsíþrótta og lýðheilsu.
Sumarið 2024 var fjallahjólabrautin Flækjan opnuð í Ævintýragarðinum. Brautin er um 600 metra löng og hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Icebike Adventures lögðu fram tillögu um næstu skref í uppbyggingu hjólabrauta í Ævintýragarðinum fyrir sumarið 2025 sem íþrótta- og tómstundanefnd hefur nú samþykkt. Annars vegar verður farið í endurbætur á neðsta hluta Flækjunnar og á sjálfri brekkunni til að bæta öryggi og loka leið sem myndast hefur við notkun brautarinnar. Hins vegar verður lögð ný fjölskylduvæn flæðibraut við hlið Flækjunnar. Þessi vinna hefst á næstu dögum.
Skipulagsnefnd heimilaði jarðvegskönnun á svæðinu og er þeirri vinnu nú lokið. Sem fyrr hentar jarðvegurinn sem er til staðar vel til þeirrar afmörkuðu landmótunar sem þarf að fara í til að byggja upp hjólabrautirnar.