Um þessar mundir sækja stjórnendur í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar ásamt starfsfólki af velferðar-, fræðslu- og frístundasviði námskeið sem kallast Solihull aðferðin. Solihull aðferðin hefur verið þróuð í Solihull í Bretlandi og er viðurkennd, áhrifarík og samstæð leið fyrir faghópa sem vinna með börn og fjölskyldur þeirra, svo sem starfsfólk skóla og skólaþjónustu ásamt starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Megininntak aðferðarinnar er leið til að að skilja áhrif samskipta á heilsu, vellíðan og afleiðingar áfalla.
Að þessu sinni taka 50 starfsmenn skóla og félagsþjónustu námskeiðin og reiknað er með að fleiri taki þau í haust.
Námskeiðin eru hluti af innleiðingu Mosfellsbæjar á lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Meginmarkmið laganna um farsæld barna er að búa til umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Hér getur t.d. verið um að ræða samþætta þjónustu skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu.
Solihull námskeiðin eru haldin sérstaklega fyrir starfsfólk Mosfellsbæjar og þau eru unnin í samstarfi við Geðverndarfélag Íslands sem m.a. leggur til leiðbeinendur. Geðverndarfélagið býður einnig upp á opin námskeið sem allir fagaðilar geta skráð sig á.