Ársskýrsla Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 er nú komin út í fyrsta sinn á nýjum ársskýrsluvef. Með þessari nýbreytni vill Mosfellsbær auka aðgengi íbúa, kjörinna fulltrúa og annarra að upplýsingum um starfsemi sveitarfélagsins og veita skýra og myndræna yfirsýn yfir verkefni ársins.
Skýrslan sýnir glöggt hversu fjölbreytta þjónustu Mosfellsbær veitir og þann metnað sem bærinn leggur í að tryggja velferð, fræðslu, skipulag, lýðheilsu og menningu.
Árið 2024 var metár í fjárfestingum sem einkenndist af fjölmörgum viðhaldsverkefnum og mikilli uppbyggingu, meðal annars við Helgafellsskóla og á Varmársvæði.
Þá var ráðist í öflugt forvarnaverkefni undir yfirskriftinni Börnin okkar og stafræn þjónusta bætt í gegnum vefinn mos.is.
„Við höfum lagt mikla áherslu á að gera upplýsingar aðgengilegar og skýrar fyrir bæjarbúa og það er því ánægjulegt að stíga þetta skref yfir í stafræna útgáfu ársskýrslu“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri í ávarpi sínu.
Við hvetjum alla Mosfellinga og önnur áhugasöm til að kynna sér efni skýrslunnar til að fá innsýn í fjölbreytt verkefni og þjónustu Mosfellsbæjar.