Mosfellsbær hefur undanfarin ár boðið upp á leikskólaþjónustu fyrir yngsta aldurshópinn sem er orðinn 12 mánaða eða eldri þegar skólastarf hefst í ágúst ár hvert.
Til þess að geta staðið við þessar áherslur í þjónustu sveitarfélagsins hefur fræðslunefnd Mosfellsbæjar samþykkt að leita samninga við LFA (Leikskóli fyrir alla) um allt að 50 leikskólapláss frá og með ágúst 2023.
Mikil fjölgun barna hefur átt sér stað í Mosfellsbæ undanfarið ár og börn í Mosfellsbæ fædd árið 2021 urðu fleiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá hefur flutningur eldri barna í bæjarfélagið verið umtalsverður og við þessari stöðu er brugðist meðal annars með samningum við LFA.
Mosfellsbær er nú þegar með samning við LFA um leikskólapláss og nú á vorönn eru í Korpukoti og Fossakoti í heild 22 mosfellsk börn.
Nýr samningur mun fela í sér útvíkkun á gildandi samningi og markmiðið er að tryggja það þjónustustig sem Mosfellsbær hefur tekið ákvarðanir um gagnvart yngstu íbúum Mosfellsbæjar og fjölskyldum þeirra.
Gert er ráð fyrir að allt að 110 börn sem verða 12 mánaða eða eldri fái leikskólapláss í haust í leikskólum í Mosfellsbæ eða í Korpukoti. Þá eru starfandi dagforeldrar í Mosfellsbæ og Mosfellsbær niðurgreiðir vistunargjöldin þannig að foreldrar greiða sama gjald hjá dagforeldrum og væru þeir með börn sín í leikskóla. Í heild eru 820 börn í leikskólum eða hjá dagforeldrum í Mosfellsbæ.
Bæjarráð samþykkti nú í mars að bjóða út byggingu 150 barna leikskóla í Helgafellslandi sem mun mæta þörfum vegna sístækkandi barnasamfélags í Mosfellsbæ.
Tengt efni
Innritun í leikskóla haustið 2023
Aðalinnritun vegna úthlutunar leikskólaplássa, sem losna í haust þegar elstu leikskólabörnin byrja í grunnskóla, hefst um miðjan mars og stendur fram í maí.
Leikskólar og frístundastarf opnar kl. 13:00 í dag
Skólahald var fellt niður í dag vegna óveðursins sem gekk yfir landið í nótt.
Leikskólagjöld í Mosfellsbæ eru ýmist lægst eða næst lægst
Ný úttekt verðlagseftirlits ASÍ á meðal 15 stærstu sveitarfélaga landsins leiðir fram að foreldrar í Mosfellsbæ greiða lægstu leikskólagjöld á landinu fyrir níu tíma leikskóladag og næst lægstu leikskólagjöldin fyrir átta klukkustunda leikskóladag með fæði.