Í haust tekur til starfa nýr leikskóli í Vefarastræti í Helgafellslandi og hefur hann nú hlotið nafnið Sumarhús. Nafn skólans var valið á fundi fræðslunefndar eftir hugmyndaöflun frá bæjarbúum.
Sumarhús var ein af þeim hugmyndum sem oftast komu fyrir í hugmyndaleitinni og hefur sérstaka skírskotun til bókmennta Nóbelsskáldsins og Mosfellingsins Halldórs Laxness, eins og raunar hverfið allt.
Skáldið notað hugtakið Sumarhús í verkum sínum sem tákn fyrir skjól, endurnýjun og tengsl við náttúruna. Auk þess birtist oft í ritum hans sterkt samband milli manns og umhverfis, þar sem sumarhús eru tákn um ró, sköpun og frjósemi hugans, gildi sem leikskólastarf á að efla hjá börnum. Nafnið tengist jafnframt sjálfstæði, framtíð og von, rétt eins og leikskólar stuðla að því að börn fái tækifæri til að rækta hæfileika sína og láta drauma sína rætast.
Alls bárust um 170 tillögur að nafni og þökkum við bæjarbúum innilega fyrir áhugann og aðstoðina. Þeim aðilum sem stungu upp á þessu nafni verður boðið sérstaklega til veislu þegar leikskólinn Sumarhús verður vígður formlega.
Vinna við húsið sjálft hefur gengið vel og er á áætlun. Uppsteypu og frágangi á ytra byrði hússins er að mestu lokið og er stefnt að því að framkvæmdum verði lokið í lok júní.
Verið er að ganga frá ráðningu leikskólastjóra sem mun veita Sumarhúsum forstöðu og taka, ásamt starfsfólki, á móti börnum í skólann í haust. Börn og starfsfólk leikskólans Hlaðhamra munu jafnframt fá að njóta Sumarhúsa á meðan verið er að skoða og meta ástandið á húsnæði Hlaðhamra.
Það er ekki á hverjum degi sem opnaður er nýr skóli í sveitarfélaginu en þetta verður glæsileg bygging sem á eftir að halda vel utan um börn og starfsfólk í leik og starfi til framtíðar.