Ungmennaráð Mosfellsbæjar hélt í fyrsta skipti fund með bæjarstjórn síðastliðinn miðvikudag og lagði fyrir bæjarfulltrúa ýmsar spurningar sem brenna á ungmennum bæjarins.
Þar var m.a. rætt um samgöngur milli hverfa, útivistarsvæði, umferðaröryggi, almenningssamgöngur og skólamál. Sérstaklega var spurt út í byggingu nýs framhaldsskóla í bænum, enda líklegt að hugur margra ungmenna í bænum stefni þangað að loknum grunnskóla.
Ungmennaráðið, sem er skipað 9 fulltrúum frá grunnskólum og framhaldsskóla Mosfellsbæjar, hefur nú verið starfrækt frá 1. desember 2008 og fundar ráðið mánaðarlega.
Ungmennaráð er umræðu- og samstarfsvettvangur ungmenna á aldrinum 13-20 ára í sveitarfélaginu, með það að markmiði að koma tillögum og skoðunum ungmenna til skila til viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagsins, vera sveitarfélaginu ráðgefandi um málefni er tengjast ungu fólki, gera ákvarðanatöku í málefnum ungmenna sýnilegri og auka tengsl fulltrúa nemenda og bæjaryfirvalda, auk þess að þjálfa ungmenni í sveitarfélaginu í lýðræðislegum vinnubrögðum.