Mosfellsbær og Alefli ehf. hafa undirritað verksamning um byggingu leikskóla í Helgafellslandi.
Um er að ræða uppsteypu og fullnaðarfrágang á um 1680 m2 leikskóla og tilheyrandi lóð að Vefarastræti 2-6.
Markmiðið er að byggja hagkvæman og vel útfærðan leikskóla sem mætir þörfum metnaðarfulls leikskólastarfs og menntastefnu Mosfellsbæjar. Leikskólinn verði hagkvæmur í rekstri, að hljóðvist, lýsing og loftgæði verði sem best og byggingin í heild sinni falli þannig að umhverfi sínu að auðvelt sé að tengja saman skólastarf, náttúru, umhverfi og samfélag.
Vinna Aleflis felst í að steypa upp leikskólann, framkvæma nauðsynlegar fyllingar innan lóðar og mannvirkja ásamt því að loka og klára húsið að fullu að innan og utan.
Lóð leikskólans verður við opnun fullkláruð með leiktækjum, bílaplani og gönguleiðum og skal verkinu að fullu lokið 1. maí 2025.
Á myndinni eru Regína Ásvaldsdóttir, Magnús Þór Magnússon, Gunnhildur Sæmundsdóttir, Jóhanna B. Hansen, Óskar Gísli Sveinsson og Helga Hannesdóttir.