Félags- og tryggingamálaráðherra og bæjarstjóri Mosfellsbæjarundirrituðu í dag samning um byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ.
Ráðgert er að hefja framkvæmdir í sumar og að heimilið verði tekið í notkun vorið 2012.
Í samningnum er gert ráð fyrir að Mosfellsbær taki að sér að hanna og byggja 30 rýma hjúkrunarheimili við Hlaðhamra í Mosfellsbæ. Mosfellsbær leggur jafnframt til lóð undir bygginguna. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun á 40 árum greiða Mosfellsbæ hlutdeild í húsaleigu vegna húsnæðis sem ígildi stofnkostnaðar. Félags- og tryggingamálaráðherra gekkst nýlega fyrir lagabreytingu sem heimilar Íbúðalánasjóði að lána sveitarfélögum fyrir öllum byggingakostnaði hjúkrunarheimila og er framkvæmdin í Mosfellsbæ byggð á þeim grunni.
Níu sveitarfélög hafa átt í viðræðum við ríkið um byggingu hjúkrunarheimilis og hefur Mosfellsbær verið í forsvari fyrir þau.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar sagði við undirritunina í dag: “Með tilkomu hjúkrunarheimilis rætist langþráður draumur Mosfellinga, en bæjaryfirvöld hafa frá árinu 1998 leitað samþykkis ráðuneytisins um heimild til byggingar og rekstur hjúkrunarheimilis. Með tilkomu heimilisins verður síðasti hlekkurinn í mikilvægri þjónustukeðju við íbúa að veruleika.”
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra sagði við þetta tækifæri að einkar ánægjulegt væri að nú yrði af þessum langþráðu framkvæmdum. Löngu væri tímabært að hefja endurbyggingarátak og sérstaklega ánægjulegt væri að hægt væri að hleypa því af stokkunum á tímum þrenginga í efnahagslífinu. Framundan væri uppbygging 360 rýma sem kallaði á 1200 ársverk í uppbyggingunni, vítt og breitt um landið. Með þessu átaki náist að loka öllum tví- og þríbýlum á hjúkrunarheimilum og aðstaða þeirra sem þjónustuna njóta þannig bætt til muna.