Mosfellsbær, Míla og Veitur ohf. hyggjast endurnýja allar hita-, vatns-, götulýsingar-, fjarskipta-, rafmagns- og fráveitulagnir í Lágholti á komandi mánuðum. Við svo umfangsmikla framkvæmd verður ekki hjá því komist að rask eigi sér stað á götu, gangstéttum og íbúðalóðum í götunni á meðan lagfæring á sér stað og beinast upplýsingar þessar til húseigenda og íbúa við götuna. Stefnt er á að framkvæmdirnar hefjist í apríl 2025.
Upplýsingafundur um framkvæmdina verður haldinn í Hlégarði þann 13. mars kl. 16:00. Eru húseigendur og íbúar hvattir til að mæta á fundinn.
Mosfellsbær mun upplýsa húseigendur og íbúa um nánari útfærslu framkvæmdarinnar áður en hún hefst en verkinu verður skipt upp í fjóra áfanga.
Á meðan á framkvæmd stendur við hvern áfanga fyrir sig má búast við töluverðu raski við þann hluta götunnar sem undir er hverju sinni, en aðgengi húseigenda og íbúa að heimilum sínum verður tryggt á meðan framkvæmd stendur. Þó verður nauðsynlegt að takmarka aðgengi bifreiða um framkvæmdasvæði á meðan á framkvæmdum stendur og þá verða bílastæði takmörkuð.
Fullt samráð verður haft við húseigendur um tengingar lagna inn í hús og um frágang hvers konar rasks sem verða kann innan lóða.
Mosfellsbær biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem fyrirsjáanlegt er að framkvæmdin muni valda íbúum við götuna.
Meðfylgjandi eru skýringarmyndir af fyrirhugaðri áfangaskiptingu framkvæmdarinnar.
Áfangi 1: Lágholt 1 – 7. Fyrirhuguð aðkoma íbúa verður um Skeiðholt á meðan framkvæmt er á blá-yfirstrikaða svæðinu.
Áfangi 2: Lágholt 7 – 13. Fyrirhuguð aðkoma íbúa verður um Skeiðholt og hjáleið um Skólabraut á meðan framkvæmt er á blá-yfirstrikaða svæðinu.
Áfangi 3: Lágholt 13 – 19. Fyrirhuguð aðkoma íbúa verður um Skeiðholt og hjáleið um Skólabraut á meðan framkvæmt er á blá-yfirstrikaða svæðinu.
Áfangi 4: Lágholt 19 – 23. Fyrirhuguð aðkoma íbúa verður um hjáleið við Skólabraut á meðan framkvæmt er á blá-yfirstrikaða svæðinu.