Tvær gönguskíðabrautir hafa verið lagðar á Hlíðarvelli, hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Brautirnar eru mislangar og ættu því að henta flestum.
Gönguskíði er tilvalið sport fyrir alla og hentar yfirleitt flestum í fjölskyldunni stórum sem smáum. Íþróttin er góð útivera sem færir súrefni í lungun og kemur blóðinu á hreyfingu.
Skíðaganga er hvort tveggja í senn: Erfið keppnisíþrótt sem krefst gríðarlegs úthalds, styrks og tækni og einnig almenningsíþrótt sem ungir sem aldnir geta stundað sér til heilsubótar og yndisauka. Svo geta gönguskíði líka verið hinn besti ferðamáti þegar svo ber undir.
Börn geta lært á gönguskíði um leið og þau fara standa í lappirnar og það er aldrei of seint að byrja meðan fæturnir bera mann. Fyrir yngstu kynslóðina getur verið ótrúlega gaman og þægilegt að setjast á sleða eða snjóþotu og láta hrausta mömmu eða pabba draga sig. Þá þarf að vísu að gæta vel að klæðnaði og einangrun því kuldaboli getur bitið þó dráttarklárnum hitni í hamsi.