Stækkun byggingarreits og hækkun nýtingarhlutfalls á lóð fyrir færanlegar kennslustofur við Æðarhöfða, og breytingar á fjölbýlislóðum við Þverholt, m.a. vegna leiguíbúða. Athugasemdafrestur til 24. apríl 2015.
Mosfellsbær auglýsir hér með skv. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftirtaldar tvær tillögur að breytingum á deiliskipulagi:
Lóð við Æðarhöfða fyrir færanlegar kennslustofur
Tillagan er um stækkun á byggingarreit til vesturs og hækkun á leyfðu nýtingarhlutfalli úr 0,12 í 0,22. Markmið breytingarinnar er að koma megi fyrir á lóðinni allt að 12 færanlegum kennslustofum fyrir 5-7 ára börn, til þess að minnka álag á Lágafellsskóla.
Við Þverholt, breyting á miðbæjarskipulagi
Breyting tekur til lóðanna nr. 21-27 við Þverholt og felur í sér að innbyrðis lóðarmörk milli þeirra og mörk byggingarreita breytast, íbúðum fjölgar úr 48 í 62 og sett er skilyrði um að íbúðir á nr. 25 og 27 verði leiguíbúðir. Markmið með breytingunni er m.a. að núverandi leikhús á svæðinu geti staðið áfram um hríð, þótt uppbygging á svæðinu samkvæmt skipulaginu hefjist.
Ofangreindar tillögur verða til sýnis í þjónustuveri Mosfellsbæjar Þverholti 2, frá 12. mars 2015 til og með 24. apríl 2015, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir.
Athugasemdir skulu vera skriflegar og skal senda þær til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ, eigi síðar en 24. apríl 2015.
5. mars 2015,
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar