Nýverið var endurnýjaður þjónustusamningur milli Ásgarðs – handverkstæðis og Mosfellsbæjar um verndaða vinnu og hæfingu fatlaðs fólks á árunum 2018-2022.
Slíkur samningur var fyrst gerður 2012 í kjölfar þess að þjónusta við fatlað fólk var færð frá ríki til sveitarfélaga. Eins og Mosfellingum er kunnugt er Ásgarður í Álafosskvosinni og þar eru að jafnaði við nám, þjálfun og störf um 30 fatlaðir starfsmenn með aðstoð nokkurra verkstjóra.
Samninginn undirrituðu Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Heimir Þór Tryggvason forstöðumaður Ásgarðs.
„Verkstæðið í Ásgarði er landsþekkt og tengt við Mosfellsbæ í hugum fólks og sómir sér vel sem skapandi handverkstæði meðal annarra listasmiðja og vinnustofa í Álafosskvosinni. Staðsetningin og starfsemin er að mínu mati fyrirmynd fyrir þá samþættingu þjónustu sem er eitt meginmarkmiða þess að fela sveitarfélögunum að annast þjónustu við fatlað fólk,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Heimir Þór sagði við sama tilefni að starfsmenn Ásgarðs fagni þessum áfanga og samningurinn væri mikilvægur fyrir Ásgarð. Hann tryggði bæði fjárhagslegt öryggi næstu árin auk þess að vera viðurkenning á því starfi sem þar fer fram.
Tengt efni
Áframhaldandi samstarf við Ásgarð
Í dag var skrifað undir áframhaldandi samning milli Ásgarðs handverkstæðis og Mosfellsbæjar um hæfingartengda þjónustu Ásgarðs til fatlaðra íbúa Mosfellsbæjar.
Jólamarkaður Ásgarðs Handverkstæðis fellur niður vegna fjöldatakmarkana
Áður auglýstur jólamarkaður Ásgarðs sem átti að fara fram laugardaginn 5. desember á milli kl. 10:00 – 17:00 fellur niður.
Starfsemi Ásgarðs í Kvosinni efld
Mosfellsbær og Ásgarður handverkstæði hafa skrifað undir samning um að hinn síðarnefndi taki á leigu Álafossveg 10 gegn því að gerðar verði endurbætur á húsnæðinu.