Það á við um eldri borgara sem aðra að félagslegt samneyti og virkni er hornsteinn vellíðunar. Það hefur fjöldi rannsókna sýnt fram á. Þessi leiðarljós, ásamt því að stuðla að möguleikum eldra fólks til að búa við eðlilegt heimilislíf eins lengi og unnt er, hafa verið sem rauður þráður við mótun þjónustu við þá sem komnir eru á efri ár.
„Það sem einkennir þjónustuna í Mosfellsbæ er aðgengileg og fjölbreytt starfsemi. Í þjónustumiðstöðinni Eirhömrum er félagsstarf eldri borgara og Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni (FaMos) til húsa og standa fyrir fjölbreyttri starfsemi flesta virka daga ársins,“ segir Unnur V. Ingólfsdóttir framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar.
Einnig er þar hárgreiðslustofa og fótaaðgerðarfræðingur, miðstöð félagslegrar heimaþjónustu og dagdvöl.
Nauðsynleg þjónustukeðja
Með þessari þjónustu stendur eldri borgurum til boða félagsskapur, matur og hressing, aðstaða til hreyfingar og tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Íbúar hússins í Eirhömrum, en þar eru 53 íbúðir, njóta sólarhringsþjónustu frá starfsmönnum félagslegrar heimaþjónustu sem hefur gert mörgum íbúa hússins kleift að búa lengur á eigin heimili en ella.
„Segja má að opnun hjúkrunarheimilisins Hamra síðla árs 2013 hafi verið síðasti hlekkurinn í nauðsynlegri þjónustukeðju við eldri borgara í bæjarfélaginu, en innangengt er á milli hjúkrunarheimilisins og þjónustumiðstöðvarinnar,“ segir Unnur.
„Nú er svo komið að horft er til Mosfellsbæjar þegar þjónusta við eldri borgara er annars vegar. Sem dæmi um það má nefna heimsókn stjórnenda öldrunarþjónustu í Slóveníu í sumar sem kynntu sér uppbyggingu og þjónustu við eldri borgara. Sama gerði framkvæmdastjórn Vestmanneyja með bæjarstjórann í broddi fylkingar.“
Tengt efni
Opið hús fyrir eldri borgara Mosfellsbæjar
Gott að eldast í Mosfellsbæ
Heilsa og hugur fyrir 60+ byrjar 12. september 2022
Mánudaginn 12. september byrjar námskeiðið Heilsa og hugur fyrir íbúa Mosfellsbæjar sem eru 60 ára og eldri.