Um árabil hefur tendrun ljósa á jólatrénu á Miðbæjartorgi markað upphaf jólahalds í Mosfellsbæ.
Að þessu sinni voru ljósin tendruð laugardaginn 30. nóvember og létu vösk börn og fullorðnir kuldann ekki stoppa sig. Áður en dagskrá hófst á torginu lék Skólahljómsveit Mosfellsbæjar nokkur lög fyrir gesti inni í Kjarna þar sem hægt var að gæða sér á heitu súkkulaði og vöfflum sem 4. flokkur kvenna í knattspyrnu hjá Aftureldingu seldi í fjáröflunarskyni.
Á sviðinu á Miðbæjartorgi var lífleg dagskrá þar sem börn úr forskóladeild Listaskólans spiluðu og sungu, Barnakór Lágafellsóknar söng og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri taldi niður í tendrun trésins ásamt þeim Sóllilju Björgu Guðmundsdóttur og Hrannari Engilbertssyni, nemendum í Helgafellskóla. Nokkrir jólasveinar mættu á svæðið og dönsuðu í kringum jólatréð undir söng Guðrún Árnýjar sem flutti nokkur hressileg jólalög og hvatti viðstadda til að dansa sér til hita.
Jólasveinarnir leiddu að lokum hópinn inn í Kjarna og gáfu mandarínur þar sem Kvenfélag Mosfellsbæjar stóð fyrir basar og Mosfellskórinn tók lagið.