Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna nú öll eftir samræmdum viðbragðsáætlunum sem gerðar voru undir umsjón Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til að tryggja órofna lykilþjónustu á meðan inflúensufaraldur gengur yfir. Gerðar eru ráðstafanir til að hindra útbreiðslu inflúensunnar meðal starfsfólks og dreifa þannig álaginu sem annars skapast vegna forfalla. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélögunum hefur gengið vel að tryggja íbúunum lykilþjónustu þrátt fyrir forföll meðal starfsfólks.
Sveitarfélögin skilgreindu sameiginlega hvaða þjónusta telst lykilþjónusta sem leggja ber kapp á að haldist órofin þrátt fyrir inflúensufaraldur. Þjónusta af því tagi er rekstur skóla og leikskóla, heimaþjónusta og heimahjúkrun, rekstur veitna, eldvarnir, sjúkraflutningar, almenningssamgöngur og fleira sem sveitarfélögin bera ábyrgð á, auk verkefna sem lúta að innviðum í rekstri.
Sveitarfélögin unnu saman að gerð viðbragðsáætlana undir umsjón Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Lögð var áhersla á samstarf við áætlanagerðina meðal annars til að auðvelda gagnkvæma aðstoð, komi til þess að hennar verði þörf. Auk viðbragðsáætlana fyrir sveitarfélögin sem heild voru gerðar sérstakar áætlanir fyrir einstaka þjónustuþætti og fyrir hvern skóla og leikskóla.
Neyðarstjórn hefur verið skipuð í hverju sveitarfélagi fyrir sig undir formennsku framkvæmdastjóra viðkomandi sveitarfélags. Komi til þess að neyðarstjórn verði virkjuð starfar hún í samráði við aðgerðastjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu.
Samstarfið hefur auðveldað vinnu sveitarfélaganna mjög og tryggir að viðbúnaður sé með sambærilegum hætti á svæðinu öllu. Náið samráð er einnig haft við sóttvarnalækni og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu sem gegna mikilvægu hlutverki af hálfu ríkisvaldsins og gerðu viðbragðsáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.
Íbúar sveitarfélaganna eru hvattir til að fylgjast vel með upplýsingum og tilkynningum frá sóttvarnalækni. Viðbragðsáætlanir sveitarfélaganna er að finna á vefsvæðum þeirra.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði