Staða leikskólastjóra í leikskólanum Sumarhúsum var auglýst þann 25. febrúar með umsóknarfresti til 19. mars. 12 umsækjendur sóttu um. Berglind Robertson Grétarsdóttir var ráðin í stöðuna og hefur hún störf þann 1. maí nk.
Berglind er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands. Hún stundar meistaranám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf við Háskóla Íslands. Berglind hefur lokið endurmenntun í starfsþróun skólastjórnenda og stundað nám í stjórnunarfræði menntastofnana í Háskóla Íslands.
Berglind býr yfir 20 ára farsælum ferli sem skólastjórnandi og hefur hún í störfum sínum öðlast víðtæka reynslu varðandi stjórnun leikskóla. Undanfarin tvö ár hefur Berglind starfað sem framkvæmdastjóri Tröppu ehf. sem býður upp á margvíslega sérfræðiráðgjöf til leik- og grunnskóla víðs vegar um landið. Berglind starfaði sem skólastjóri hjá Skólum ehf. frá árinu 2008 þar sem hún byggði upp og stýrði starfsemi Ungbarnaleikskólans Ársólar í 13 ár og í kjölfarið stýrði hún Heilsuleikskólanum Kór í Kópavogi. Samhliða starfi sínu sem skólastjóri var Berglind verkefnastjóri fagmála fyrir Skóla ehf. á árunum 2019-2023. Berglind hefur að auki verið aðstoðarleikskólastjóri í Brákarborg í tæp tvö ár og þar áður var hún skólastjóri í leikskólanum Bakkaskjóli í Ísafjarðarbæ.
Berglind er sjálfboðaliði í viðbragðshópi hjá Rauða Krossinum og sinnir þar sálrænum stuðningi ásamt því að vera hópstjóri á Höfuðborgarsvæðinu. Berglind sat í stjórn samtaka sjálfstæðra skóla um árabil og sömuleiðis í stjórn Samtaka heilsuleikskóla.