Menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Lista- og menningarsjóði vegna listviðburða og menningarmála árið 2025.
Tilgangur árlegrar styrkveitingar til lista- og menningarmála er að efla menningarstarfsemi í Mosfellsbæ. Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök eða stofnanir, innan sem utan Mosfellsbæjar.
Fjárframlög til lista og menningarmála eru af tvennum toga:
- Styrkir til almennrar listastarfsemi
Styrkir til almennrar listastarfsemi eru veittir hópum og félagasamtökum sem sannað hafa gildi sitt í mosfellsku menningarlífi eða geta með skýrum hætti sýnt fram á gildi starfs síns, án þess þó að styrkir séu tengdir ákveðnu verkefni. - Styrkir vegna viðburða eða verkefna
Styrkir vegna viðburða eða verkefna eru veittir einstaklingum, hópum og félagasamtökum sem geta með skýrum hætti sýnt fram á gildi einstakra tilgreindra verkefna á sviði menningar og lista í eða fyrir Mosfellsbæ.
Umsóknum skal skilað í síðasta lagi þann 8. mars 2025 á Mínum síðum Mosfellsbæjar.
Ekki er tekið við umsóknum eftir 8. mars.
Niðurstöður menningar- og lýðræðisnefndar munu liggja fyrir eigi síðar en 18. mars 2025 og eru háðar samþykki bæjarstjórnar.