1. gr.
Tilgangur árlegrar styrkveitingar til lista- og menningarmála er að efla menningarstarfsemi í Mosfellsbæ.
2. gr.
Umsækjendur geta verið einstaklingar, hópar og félagasamtök innan sem utan Mosfellsbæjar.
3. gr.
Hægt er að sækja um styrki til almennrar listastarfsemi og/eða um styrki vegna viðburða eða verkefna í Mosfellsbæ.
- Styrkir til almennrar listastarfsemi
Styrkir til almennrar listastarfsemi eru veittir hópum og félagasamtökum sem sannað hafa gildi sitt í mosfellsku menningarlífi eða geta með skýrum hætti sýnt fram á gildi starfs síns, án þess þó að styrkir séu tengdir ákveðnu verkefni. - Styrkir vegna viðburða eða verkefna
Styrkir vegna viðburða eða verkefna eru veittir einstaklingum, hópum og félagasamtökum sem geta með skýrum hætti sýnt fram á gildi einstakra tilgreindra verkefna á sviði menning-ar og lista í eða fyrir Mosfellsbæ. Styrkir vegna viðburða og verkefna verða ekki veittir til viðburða og verkefna sem eru á vegum sveitarfélagsins eða fá framlög af fjárhagsáætlun þess. Ferðalög, nám eða rekstur eru ekki styrkhæf. Viðburða- og verkefnastyrki er ekki hægt að sækja um eftir að verkefni eða viðburði er lokið.
4. gr.
Umsóknir um styrki skulu berast í gegnum þjónustugátt Mosfellsbæjar.
Í umsókn um styrk til almennrar listastarfsemi skal greina frá starfi, leggja fram starfsáætlun næsta árs, og birta fjárhagsáætlun og ársreikning.
Með umsókn um styrk vegna viðburða eða verkefna skal fylgja greinargóð lýsing á verkefninu og leggja fram skýra fjárhagsáætlun þar sem tilgreindar eru helstu kostnaðarliðir og fjármögnunarleiðir.
5. gr.
Menningar- og lýðræðisnefnd áskilur sér rétt til að samþykkja eða hafna umsókn umsækjanda að hluta eða alfarið. Menningar- og lýðræðisnefnd veitir ekki rökstuðning um ákvörðun styrkja samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga.
6. gr.
Þeir sem hljóta styrk frá Mosfellsbæ skulu láta þess getið í kynningarefni sínu og birta merki Mosfellsbæjar. Mosfellsbæ skal berast kynning á verkefni til birtingar á heimasíðu bæjarins áður en af viðburði verður.
7. gr.
Greiðslur fyrir verkefni eða viðburð fram að afloknu verki og eru inntar af hendi gegn framvísun reiknings. Umsækjandi getur óskað eftir greiðslum fyrr og þurfa þær óskir og röksemdir fyrir þeim að berast skriflega og tekur menningar- og lýðræðisnefnd afstöðu til þess á fundi.
8. gr.
Styrkþegum ber að skila inn lokaskýrslu um framkvæmd verkefnisins og ráðstöfun styrkfjár fyrir 31. desember. Eins ber að veita menningar- og lýðræðisnefnd upplýsingar um framkvæmd verkefnisins og skila áfangaskýrslu ef eftir því er leitað.
9. gr.
Útborgun fjárframlaga er háð skilum á lokaskýrslu og ef ekkert verður af verkefni eða verulegar breytingar verða á því eru styrkir afturkræfir. Miðað er við að styrkir séu greiddir út innan árs frá úthlutunardegi, en að öðrum kosti mega styrkþegar gera ráð fyrir að styrkir falli niður, nema um annað hafi verið samið.
Staðfest á 851. fundi bæjarstjórnar 22. maí 2024.