Undanfarin ár hefur Frjálsíþróttadeild Ungmennafélagsins Aftureldingar haldið sitt árlega frjálsíþróttamót fyrir börn og unglinga að 14 ára aldri hér í Mosfellsbæ.
Mót þetta er betur þekkt undir heitinu Goggi Galvaski en þar hefur margt ungt og efnilegt frjálsíþróttafólk af öllu landinu stigið sín fyrstu spor í vegferð sem síðar hefur komið því í röð fremsta íþróttafólks þjóðarinnar í þessari íþróttagrein.
Mót þessi hafa jafnan staðið yfir síðustu helgi júnímánaðar frá föstudegi til sunnudags með þátttöku frjálsíþróttafélaga af öllu landinu. Keppt er í algengustu frjálsíþróttagreinum, þar sem ungt efnilegt frjálsíþróttafólk fær að spreyta sig, auk þess að boðið er upp á léttar keppnisgreinar fyrir yngstu þátttakendurna.
Stórmót Gogga Galvaska er nú haldið í 24. skipti og styttist því í stórafmælið. Í ár er ætlunin að halda veglegt mót helgina 28. – 30. júní n.k. en undanfarin ár hefur Goggi undið upp á sig með alls kyns uppákomum samhliða hinni hefðbundnu keppni.
Auk keppnismóts þessa ofangreinda helgi mun margt verða til skemmtunar fyrir þátttakendur, foreldra/forsjáraðila og þjálfara á Gogga Galvaska, svo sem rathlaup, sundlaugarpartý, grillveisla og fleira. Það mun því verða líf og fjör á Varmárvelli síðustu helgina í júní 2013 þegar ungt og efnilegt frjálsíþróttafólk hvaðanæva af landinu mun takast á í skemmtilegri keppni. Svo er aldrei að vita nema að við fáum einhverja meistaraflokkskeppendur til þess að keppa í mótslok eins og í fyrra og reyna við ný met.
Það verður því líf og fjör að Varmá um helgina.
Tengt efni
Mosfellingur tvöfaldur heimsmeistari
Benedikt Ólafsson 19 ára Mosfellingur var valinn úr stórum hópi Landsliðs Íslands í hestaíþróttum til að taka þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi í sumar.
Borðtennisfélag Mosfellsbæjar kynnt á bæjarhátíð
Nýstofnað Borðtennisfélag Mosfellsbæjar stóð fyrir opnu húsi í gær þann 24. ágúst 2023 sem hluta af dagskrá bæjarhátíðarinnar Í túninu heima.
Foreldrafundur í kvöld
Fræðslu og frístundavið Mosfellsbæjar stendur fyrir foreldrafundi í kvöld, þriðjudag 22. ágúst. Fundurinn hefst kl. 17:30 og er haldinn á Teams.