Stóri plokkdagurinn verður þann 28. apríl næstkomandi og stendur hópurinn Plokk á Íslandi fyrir deginum.
Plokkarar ætla að beina sjónum sínum að Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi í ár og ætla sér að taka til hendinni á þeim svæðum í tengslum við skipulagðan hluta þessa dags. Öllum er jafnframt velkomið að plokka á öðrum svæðum á Stóra plokkdeginum.
Reykjanesbrautinni verður skipt upp í svæði og vaktir til að reyna að ná sem mestum árangri. Reykjanesbrautin er heimreið höfuðborgarinnar frá útlöndum og hana aka mörg þúsund erlendra gesta og Íslendinga alla daga ársins.
Á sama tíma og þessi svæði eru þrifin þá vilja Plokkarar minna vegfarendur sem skipta hundruðum ef ekki þúsundum á hverjum klukkutíma, á að allir geta plokkað og allir geta tekið þátt í að gera umhverfið og heiminn betri.
Í Mosfellsbæ verður ræst frá bílastæðinu við N1. Öllum er velkomið að vera með og mæta hluta úr degi eða taka þátt allan daginn. Það væri frábært að sjá sem flesta af flottum íbúum Mosfellsbæjar taka þátt. Því fleiri því hreinna!