Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti samhljóða á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag, 14. september, viðauka við eigendasamkomulag um urðun í Álfsnesi. Viðaukinn kveður á um framlengingu á nýtingu urðunarstaðarins að hámarki til ársloka 2030 fyrir óvirkan úrgang. Viðaukinn verður lagður fyrir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en auk Mosfellsbæjar hefur borgarráð Reykjavíkur afgreitt viðaukann fyrir sitt leyti.
Sett eru stíf skilyrði fyrir framkvæmdinni sem eru eftirtalin:
- Urðun á lyktarsterkum og lífrænum úrgangi verður hætt 31. desember 2023
- Blandaður og baggaður úrgangur verður ekki urðaður í Álfsnesi eftir 31. desember 2023
- Brennslustöð fyrir úrgang verður ekki reist i Álfsnesi
- Til að lágmarka sjónræn grenndaráhrif verður opnuð ný rein til urðunar á óvirkum úrgangi í norðanverðu Álfsnesi árið 2024
- Sorpa mun vinna markvisst að því að finna nýjan urðunarstað og samhliða leita leiða til að draga úr allri urðun í Álfsnesi
- Sorpa fer í aðgerðir til að lágmarka lyktarmengun s.s. með því að auka verulega við jarðvegs- og gróðurþekju urðunarstaðarins
- Unnið verði markvisst að víðavangshreinsun í Álfsnesi og skógrækt
- Sorpa mun standa fyrir hugmyndasamkeppni um frágang og framtíðarsýn svæðis urðunarstaðar í Álfsnesi á árinu 2024
Bæjarráð bókaði svohljóðandi vegna málsins:
Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir yfir vonbrigðum með að urðun í Álfsnesi verði ekki hætt í árslok líkt og eigendasamkomulag frá árinu 2013 með síðari viðaukum um meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi kveður á um. Ein helsta ástæða fyrir því er að annar urðunarstaður fyrir höfuðborgarsvæðið hefur ekki fundist.
Sá viðauki við eigendasamkomulagið sem nú liggur fyrir kveður á um framlengingu á nýtingu urðunarstaðar í Álfsnesi til ársloka 2030 fyrir óvirkan úrgang. Sett eru stíf skilyrði um að urðun alls lífræns úrgangs verði hætt 31. desember 2023. Þar að auki kveður samkomulagið á um víðtækar aðgerðir til að koma í veg fyrir lyktar- og sjónmengun auk umfangsmikillar skógræktar í Álfsnesi.
Til að tryggja eftirfylgni við samkomulagið verður sett á fót þriggja manna verkefnastjórn sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun sitja í. Bæjarráð leggur áherslu á að verkefnastjórnin tryggi að vinna við leit að nýjum urðunarstað verði í forgangi þannig að unnt verði að hætta urðun í Álfsnesi sem fyrst. Er lögð áhersla á að verkefnastjórn skili framvinduskýrslu til eigenda tvisvar á ári.
Meðal annars í ljósi þess að hætt verður að urða lífrænan úrgang, að útflutningur á bögguðum úrgangi er að hefjast auk þeirra skilyrða sem fram koma í samkomulaginu samþykkir bæjarráð Mosfellsbæjar fyrirliggjandi viðauka við eigendasamkomulagið með þeim skilyrðum sem þar koma fram, þ.á.m. að urðun verði alfarið hætt í árslok 2030.
Bæjarstjóra er falið að undirrita samkomulagið fyrir hönd Mosfellsbæjar.
Á næstu vikum mun útflutningur hefjast á bögguðum og blönduðum úrgangi en sænska fyrirtækið Stena mun taka við úrgangnum til brennslu. Áætlað er að 40-50 þúsund tonn af bögguðum úrgangi hafi verið urðuð árlega í Álfsnesi. Þá er hafið verkefni í samstarfi SSH og umhverfisráðuneytisins þar sem verið er að skoða kosti þess að reisa sorpbrennslu í Helguvík.
Tengt efni
Sorphirða yfir jól og áramót 2024
Samið um sorphirðu til næstu ára
Snjallar grenndarstöðvar í Mosfellsbæ
Á næstu vikum verða þrjár grenndarstöðvar í Mosfellsbæ gerðar snjallar.