Á dögunum veitti Verkfræðifélag Íslands sín árlegu verðlaun Teninginn, en það eru verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd af mati dómnefndar. Í ár var Sorpa og samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verðlaunuð fyrir innleiðingu samræmds flokkunarkerfis fyrir heimili.
Mosfellsbær innleiddi umræddar breytingar í júní 2023 til samræmis við lög um hringrásarhagkerfið með því að taka skrefið í fjórflokkun úrgangs við öll heimili. Við það tækifæri voru nýjar tunnur afhentar íbúum, pappírspokar fyrir lífrænan úrgang ásamt plastkörfum. Íbúar Mosfellsbæjar tók breytingunum vel og hafa staðið mjög framarlega í samanburði við önnur sveitarfélög. Með sérsöfnun á matarleifum var stigið stór skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Mælingar á magni matarleifa í blönduðum úrgangi og hreinleiki matarleifa sýna að algjör hugarfarsbreyting hefur orðið hjá íbúum. Árangur verkefnisins fór fram úr bæði markmiðum og björtustu vonum hvort sem litið er til hugarfarsbreytingar, breyttrar hegðunar eða jákvæðra áhrifa á bæði heildarmagn úrgagns frá heimilum, magni flokkaðs úrgangs, endurvinnsluhlutfalls, hreinleika eða skilvirkni flokkunar.
Góðan árangur verkefnisins má ekki síst þakka stýrihópi sem undirbjó verkefnið og var skipaður tæknimenntuðu fólki sem starfar hjá sveitarfélögunum og Sorpu bs.
Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar verkefnisins að taka á móti viðurkenningunni. Fulltrúi Mosfellsbæjar Katrín Dóra Þorsteinsdóttir er lengst til hægri á myndinni.