Á dögunum var skrifað undir viljayfirlýsingu um sameiningu golfklúbbanna í Mosfellsbæ, Kjalar og Bakkakots, í nýjan klúbb undir nafninu Golfklúbbur Mosfellsbæjar.
Formenn klúbbanna, fyrir hönd stjórna þeirra, ásamt Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra, undirrituðu viljayfirlýsinguna þar sem stefnt er að sameiningarviðræðum á árinu 2014. Nýr klúbbur mun halda úti tveimur vallarsvæðum og halda þeim við með sambærilegum hætti og verið hefur.
Bæjarfélagið mun gera samning við Golfklúbb Mosfellsbæjar um uppbyggingu á golfvallarsvæðum klúbbsins í bæði Mosfellsdal og Mosfellsbæ og mun sú uppbygging hefjast á árinu 2014.
Verði sameining golfklúbbanna samþykkt á aðalfundum félaganna munu stjórnir þeirra ásamt Mosfellsbæ ganga frá formlegu þríhliða samkomulagi um sameiningu klúbbanna og stuðningi bæjarfélagsins við hinn sameinaða klúbb.
Á myndinni eru Guðjón Karl Þórisson, formaður Kjalar, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri og Gunnar Ingi Björnsson, formaður Golfklúbbs Bakkakots.