Starfslok vegna aldurs marka mikilvæg tímamót í lífi fólks. Þau fela oft í sér verulegar breytingar og því er nauðsynlegt að undirbúa sig vel. Rannsóknir sýna að vel skipulögð starfslok geta aukið lífsgæði og vellíðan fólks. Aðlögun og góður undirbúningur af hálfu vinnuveitanda eru því lykilforsendur að farsælum starfslokum.
Mosfellsbær stóð fyrir námskeiði miðvikudaginn 9. apríl sl. fyrir starfsfólk 60 ára og eldra. Námskeiðið var haldið í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Auðnast og markmiðið var að þátttakendur fengju gagnlega fræðslu um málefni tengd starfslokum, svo sem fjármál, lífeyri, heilsu og andlega líðan svo eitthvað sé nefnt.
Mjög góð þátttaka var á námskeiðinu og starfsfólkið ánægt með að geta rætt við ráðgjafa Auðnast. Stefnt er að öðru sambærilegu námskeiði í haust fyrir starfsfólk 60 ára og eldra hjá Mosfellsbæ.