Í eitt ár hefur Mosfellsbær boðið öllu starfsfólki með annað móðurmál en íslensku aðgang að smáforritinu Bara tala. Forritið veitir notendum tækifæri til að æfa sig í að tala íslensku á skemmtilegan og gagnlegan hátt, og á fyrsta starfsárinu hafa yfir 50 starfsmenn nýtt sér þessa snjalllausn.
Nýlega var haldinn kynningarfundur þar sem farið var yfir nýjungar í forritinu og rætt um þau tækifæri sem felast í því að tileinka sér íslenskuna betur, bæði í starfi og daglegu lífi. Mosfellsbær hefur einnig tekið virkan þátt í þróun forritsins með því að vinna með Bara tala að bættri orðaforða- og setningaskipan fyrir starfsumhverfi leikskóla, sem nýtist nú öllum notendum forritsins.
Í tilefni þess að eitt ár er liðið frá því að forritið var tekið í notkun, veitti mannauðs- og starfsumhverfissvið viðurkenningu fyrir frábæra ástundun og áhuga á því að efla íslenskukunnáttu á vinnustað. Viðurkenninguna hlaut Elisabete Sofia Ribeiro Miranda, starfsmaður í Leirvogstunguskóla, en hún hefur æft íslensku í um 41 klukkustund og lokið 1.469 æfingum í forritinu síðastliðið ár. Geri aðrir betur.
Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala, á kynningarfundi með starfsfólki Mosfellsbæjar.
Á efstu mynd má sjá Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóra Bara tala, Elisabete S. R. Miranda starfsmann Leirvogstunguskóla og Hafdísi Ósk Pétursdóttir, mannauðsráðgjafa.