Þjónustustöð Mosfellsbæjar hefur umsjón með snjómokstri í Mosfellsbæ.
Undanfarna daga hefur verið mikið álag á starfsmenn og tæki í snjómokstri, enda hefur miklum snjó kyngt niður á stuttum tíma. Mokstur er í fullum gangi og er unnið dag og nótt.
Götur og stígar eru mokuð eftir umferð og mikilvægi skv. sérstakri snjómokstursáætlun. Strætisvagnaleiðir, aðal tengigötur og aðalstígar hafa forgang, en safngötur og tengistígar eru mokaðar þegar aðalleiðir eru orðnar færar. Megináhersla er lögð á að halda aðalleiðum opnum ásamt leiðum til og frá skólum áður en aðrar götur og stígar eru hreinsaðir. Almennt eru húsagötur ekki mokaðar fyrr en aðalleiðir eru orðnar færar. Hafin er vinna við mokstur í húsagötum og áætlað að henni ljúki á morgun.
Þjónustustöð þakkar íbúum biðlund og tillitsemi við þær erfiðu aðstæður sem skapast hafa undanfarna daga og hvetur þá til að moka frá sínum innkeyrslum eins og kostur er.