Eins og allir hafa orðið varir við þá er ennþá verið að vinna að mokstri eftir gríðarlegt fannfergi um helgina.
Snjómokstursaðilar, starfsmenn bæjarins og verktakar, hafa allt frá því snemma á sunnudagsmorgninum unnið sleitulaust að því að moka með öllum tiltækum tækjum.
Byrjað var á stofnbrautum snemma á sunnudag og í kjölfarið voru húsagötur ruddar fram á kvöld. Haldið var áfram við að hreinsa húsagötur í gær og í dag. Sett hefur verið í forgang að moka frá strætóskýlum til að fólk kæmist leiðar sinnar með almenningssamgöngum, en lögð er áhersla á að íbúar nýti sér þær eins og hægt er.
Ekki hefur enn gengið nægilega vel að ryðja göngustíga vegna snjómagns en unnið verður áfram að því verkefni næstu daga. Lögð er áhersla á að leiðir að og frá skólum verði orðnar vel færar á miðvikudagsmorgun og meðal annars stefnt er að því að gönguleið meðfram Skeiðholti verði rudd síðar í dag.
Þar sem miklir ruðningar eru að skapa vandræði við stofnanir Mosfellsbæjar svo sem Lágafellsskóla, Lágafellslaug og Varmárskóla þá biðjum við íbúa vinsamlegast um að geyma bíla sína ekki að næturlagi á stofnanalóðum þar sem til stendur að moka og keyra í burtu snjó þar sem hann er til trafala.
Mosfellsbær þakkar íbúum þolinmæði og jákvæðni við þær erfiðu aðstæður sem verið hafa frá því á sunnudag en vonast er til þess að þessu verkefni ljúki að mestu leyti nú síðar í vikunni. Íbúar er jafnframt hvattir til að senda ábendingar í gegnum ábendingavef um það sem betur má fara eða ef einhverjar götur eða svæði hafa gleymst.
Tengt efni
Vetrarþjónusta
Aukin og bætt vetrarþjónusta
Þann 8. október undirritaði Regína Ásvaldsdóttir fyrir hönd Mosfellsbæjar samninga um snjómokstur við tvo verktaka.
Snjómokstur í dag mánudaginn 5. febrúar 2024
Í gær voru öll tiltæk tæki við snjómokstur í öllum hverfum bæjarins.