Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 15. júní tillögu fræðslunefndar um svokallaða skráningardaga í leikskólum frá og með næsta hausti.
Það þýðir að á skilgreindum skráningardögum þurfa foreldrar að skrá börn sín sérstaklega ef þeir hyggjast nýta sér þjónustu leikskólans. Leikskólarnir verða opnir öllum þeim sem þurfa á þjónustunni að halda.
Mosfellsbær stendur frammi fyrir því, eins og mörg önnur sveitarfélög að útfæra verkefnið Betri vinnutíma eða styttingu vinnuvikunnar. Verkefnið hófst 2020 og var markmiðið að full stytting sem nemur tveimur vinnudögum á mánuði væri komin á í mars 2023 án þess að til komi viðbótar starfsfólk eða þjónusta skert. Það hefur reynt á starfsemi leikskólanna meðal annars vegna þess að á sama tíma og börn geta dvalið allt að 45 tíma á viku í leikskólanum og algengasti vistunartími er 42,5 stundir á viku er unnið að því að stytta vinnutíma starfsfólks í 36 tíma á viku.
Til að mæta þessu markmiði verkefnisins er hugmyndin að bjóða foreldrum að skrá börnin sín og óska sérstaklega eftir vistun í kringum jól-, páska- og vetrarfrí að hámarki 10 daga yfir árið og eftir kl. 14.00 alla föstudaga. Með því er hægt að skipuleggja leikskólastarfið fyrirfram og gera starfsfólki kleift að nýta þá daga til að taka út uppsafnaða styttingu vinnuvikunnar.
Leikskólastjórar munu kynna og innleiða þetta nýja fyrirkomulag í samráði við foreldra og starfsfólk eftir sumarfrí. Hver skóli hefur þannig ráðrúm til að aðlaga fyrirkomulagið að sinni starfsemi.
Leikskólagjöld verða lækkuð sem nemur skráningardögum en þau sem nýta sér þjónustu á þeim dögum greiða fyrir þá tíma.
Aldís Stefánsdóttir formaður fræðslunefndar: „Leikskólar hafa glímt í nokkurn tíma við ýmiskonar áskoranir í starfsemi sinni. Það hefur meðal annars sýnt sig í aukinni veikindafjarveru og erfiðleikum við að manna stöður. Við metum stöðuna þannig að nauðsynlegt sé að bregðast við strax og gera starfsaðstæður í leikskólum aðlaðandi og samkeppnishæfar við önnur skólastig. Við vonumst til að stytting vinnuvikunnar með þessum hætti komi til móts við þau markmið. Þetta er talsverð breyting fyrir foreldra og við erum mjög meðvituð um það. Þess vegna er mikilvægt að stíga varlega til jarðar og gera öllum kleift að sækja áfram þá þjónustu sem hingað til hefur verið veitt. Ég trúi því engu að síður að margir foreldrar skilji stöðuna og vilji leggja sitt af mörkum til að innleiða meiri stöðuleika inn í leikskólastarfið. Það er gott fyrir alla.“
Tengt efni
Breytingar á umsýslukerfi og vefsíðum leikskólanna
Dagur leikskólans 6. febrúar
Dagur leikskólans er í dag þriðjudaginn 6. febrúar.
Verkföll sem hafa áhrif á starfsemi allra leikskóla og grunnskóla í næstu viku
Aðildarfélög BSRB hafa boðað verkföll í næstu viku og standa samningaviðræður enn yfir.