Skólakór Varmárskóla tók þátt í Landsmóti barnakóra sem fram fór á Húsavík 1. – 3. maí.
Þetta var í sautjánda sinn sem skólakórinn tekur þátt í svona móti en þau eru haldin annað hvert ár. Alls tóku 11 kórar þátt í þetta sinn eða tæplega 300 börn og unglingar.
Húsvíkingar tóku höfðinglega á móti kórunum, stjórnendum þeirra og fararstjórum og var mótið einstaklega vel heppnað. Auk þess að syngja saman, var öllum boðið á Hvalasafnið og Geimfarasafnið auk sundferðar.
Glæsileg kvöldvaka var á laugardagskvöldinu og diskótek í lokin. Mótinu lauk með tónleikum á sunnudeginum og fjölmenntu Húsvíkingar til að hlýða á þennan glæsilega og stóra kór.
Læra ekki aðeins kórsöng
Eins og við var að búast stóðu krakkarnir okkar sig mjög vel á mótinu og voru til fyrirmyndar í alla staði. Þrjár mömmur voru með og héldu utan um hópinn af öryggi og lipurð. Ein þeirra segir um kórstarfið: „Starf skólakóra, eins og kóra almennt, er afar mikilvægt fyrir þá sem taka þátt í starfinu og ekki síður fyrir samfélagið. Sem foreldri barns í skólakórnum þykir mér mikilvægt að samfélagið sé meðvitað um gildi þessa starfs. Börn sem taka þátt í kórstarfi læra ekki aðeins söng heldur einnig íslensk ljóð, að vera hluti af heild og taka tillit til annarra. Kór Varmárskóla hefur verið undir öruggri handleiðslu Guðmundar Ómars Óskarssonar í 36 ár og margir stigið þar sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni, sér og öðrum til ánægju. Kórinn hefur í gegnum tíðina sungið fyrir fjölda manns og meðal annars glatt íbúa dvalarheimila aldraðra fyrir jól, fátt er betra en að læra gleði þess að gefa af sér til annarra.“
Tengt efni
Nemendur úr Helgafellsskóla plöntuðu birkiplöntum
Tveir vinabekkir 1.B og 8.B úr Helgafellsskóla plöntuðu birkiplöntum úr Yrkjusjóði nálægt Köldukvísl nýlega.
Frístundaávísun hækkar
Þann 15. ágúst hófst nýtt tímabil frístundaávísunar í Mosfellsbæ.
Líf og fjör í Mosó í allt sumar
Það er nóg um að vera í Mosfellsbæ í sumar.