Um 60 manns tóku þátt í opnum fundi menningar- og lýðræðisnefndar um rými fyrir sköpun og miðlun menningar í Mosfellsbæ sem haldinn var í Hlégarði 28. nóvember.
Í upphafi fundar velti mosfellska tónlistarkonan GDRN upp spurningunni „Hvernig sköpum við faglegt umhverfi fyrir tónlist?“. Hún deildi þar reynslu sinni sem starfandi listamaður, og lýsti þeirri umgjörð sem Tónhylur starfar eftir en þar er hún með aðstöðu ásamt mörgum öðrum listamönnum. Þá kynnti Valur Þorsteinsson, nemi í skapandi greinum við Bifröst, helstu niðurstöður könnunar meðal íbúa um starfsemi Hlégarðs. Þar næst hélt myndlistarkonan Ólöf Björg Björnsdóttir hugvekju um hvernig það er að vera starfandi listamaður í Mosfellsbæ. Taldi hún mikilvægt að vera með í þeim uppákomum og viðburðum sem fram fara í bænum og að vera þar sem hjartað slær.
Að inngangserindum loknum fór fram hugmyndavinna þátttakenda á þjóðfundarformi undir stjórn borðstjóra. Umræður voru líflegar og ljóst að þátttakendum þótti til mikils að vinna að styðja við sköpun í sveitarfélaginu.
Að dagskrá lokinni tendruðu fulltrúar Félags aldraðra í Mosfellsbæ jólaljósin á Hlégarðstúni, en ljósaskreyting Hlégarðstúns var ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó á árinu 2021, og hafa glatt bæði börn og fullorðna.
Tengt efni
Sköpum rými
Opinn fundur menningar- og lýðræðisnefndar um rými fyrir sköpun og miðlun menningar í Mosfellsbæ verður haldinn í Hlégarði þriðjudaginn 28. nóvember.
Barnadjasshátíð í Mosfellsbæ sú fyrsta sinnar tegundar
Dagana 22.-25. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í fyrsta skipti.
Glæsilegt aðkomutákn vígt við Úlfarsfell
Á 30 ára afmæli bæjarins hinn 9. ágúst 2017 var tekin ákvörðun um að efna til hönnunarsamkeppni um aðkomutákn Mosfellsbæjar.