Dagana 22.-25. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í fyrsta skipti.
Flytjendurnir eru á aldrinum 7-15 ára og koma frá Mosfellsbæ, Selfossi, Reykjavík, Noregi og Færeyjum. Samkvæmt skipuleggjendum er þetta í fyrsta skipti sem hátíð af þessu tagi er haldin á Íslandi. Verkefnið er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Mosfellsbæ, Barnamenningarsjóði og Kiwanisklúbbnum Mosfelli. Þá fékk verkefnið veglegan styrk frá Barnamenningarsjóði til að ferðast með verkefnið um allt land næsta vetur.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Odd André Elveland en hann er norskur djasstónlistarmaður og rekur tónlistarmiðstöðina Improbasen i Osló. Hann hefur þróað aðferðir til að kenna ungum börnum að spila djass eftir eyranu og að improvisera og unnið með börnum víðsvegar um heiminn. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar er Guðrún Rútsdóttir.
Athygli vekur að stelpur eru í miklum meirihluta flytjenda, þar sem mikið hefur hallað á konur í djassi vilja skipuleggjendur gera sitt besta til að valdefla stelpur í djassi, gera þær sýnilegri til að hjálpa til við að breyta þessum hlutföllum.
Tvær hljómsveitir koma einnig fram á tónleikunum; Rokkbál sem er skipuð krökkum sem voru að ljúka 9. bekk og eru í Listaskóla Mosfellsbæjar undir handleiðslu Sigurjóns Alexanderssonar og hljómsveit skipuð krökkum úr 2.-4. bekk í Landakotsskóla undir handleiðslu Sólrúnar Gunnarsdóttur og Dagnýjar Arnalds.
Haldnir verða þrennir tónleikar: 22. júní kl 19:00 í Hlégarði, 23. júní kl 17:00 í Húsi máls og menningar (Reykjavík) og 25. júní kl 16:00 í Bankanum Bistro Mosfellsbæ. Aðgangur er ókeypis inn á alla tónleikana.
Tengt efni
Tendrun jólatrés á Miðbæjartorgi vel sótt
Um árabil hefur tendrun ljósa á jólatrénu á Miðbæjartorgi markað upphaf jólahalds í Mosfellsbæ.
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð
Húsfyllir á opnun jólalistaverkamarkaðar í Listasal Mosfellsbæjar