Mosfellsbær, mennta- og barnamálaráðuneytið og Römpum upp Ísland skrifuðu undir viljayfirlýsingu í dag um fjármögnun á heitum potti með rampi fyrir hreyfihamlaða við Lágafellslaug. Lágafellslaug er ein fjölsóttasta sundlaug landsins með um 224.000 heimsóknir á ári og er afar vinsæl meðal barnafjölskyldna. Mun heiti potturinn með aðgengi fyrir öll bæta ennfrekar þjónustu og aðgengi fyrir hreyfihamlaða sundgesti en hann verður sérstaklega hugsaður fyrir hreyfihömluð börn og ungmenni. Potturinn verður sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir 30 milljón krónum til þess að byggja pottinn og munu ráðuneytið og Römpum upp Ísland hvort um sig leggja 10 milljónir króna til verkefnisins auk þess sem óskað hefur verið eftir styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna uppbyggingarinnar. Frumkostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdin fari fram á árinu 2025.
„Þetta er einstakt verkefni og mun vonandi hafa áhrif á hönnun heitra potta í almenningslaugum í framtíðinni. Þá erum við mjög ánægð með samstarfsaðilana en við höfum átt í mjög góðu samstarfi við verkefnið Römpum upp Ísland og þaðan er hugmyndin sprottin.“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Á efri mynd: Haraldur Þorleifsson, Regína Ásvaldsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.
Ljósmyndari: Hulda Margrét Óladóttir